Byrjað að reisa nýtt móttökuhús eftir helgi
Búið er að steypa upp undirstöður og plötu fyrir nýtt móttökuhús fyrir sorp á vegum Gámaþjónustu Norðurlands við Rangárvelli og fyrsti hluti af grindinni er komin til Akureyrar. Búist er við að afgangurinn komi nú í lok vikunnar og að hafist verði handa við að reisa húsið á mánudag.
Helgi Pálsson rekstrarstjóri fyrirtækisins segir að um sé að ræða límtréshús og ekki taki langan tíma að reisa grindina. Við vonumst til að komast undir þak sem allra fyrst, segir hann. Tafir hafa orðið á því að húsið rísi, en Helgi segir til að mynda að bölvað ströggl hafi verið að fá lánafyrirgreiðslu og tekur undir með þeim sem bent hafa á að fyrirtæki á landsbyggðinni eigi í erfiðleikum með að fá lán frá bönkunum. Eitthvað var um að kvartað væri um vonda lykt fyrr í sumar frá lóð fyrirtækisins, en fiskúrgangi sem geymdur var í gámum á svæðinu er um að kenna. Slíkum úrgangi er ekki sturtað út í sjó líkt og tíðkast víða annars staðar og segir Helgi að finna hafi þurft farveg til að losa sig við hann. Þetta var tímabundið ástand og búið að finna lausn á málinu, segir hann.