Frétt Vikudags í síðustu viku, um hættulega leið fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur yfir Glerárbrúna á Hörgárbraut, vakti töluverða athygli. Allir viðmælendur blaðsins höfðu svipaða sögu að segja og þessi glöggi lesandi Vikudags, sem vitnað var í. Þótt ekki átti sig allir á því þá eru brýrnar yfir Glerá á þessum stað tvær en það breytir því ekki að gönguleiðirnar beggja vegna eru þröngar. Þar er erfitt að mætast með góðu móti, þegar þar fara um t.d. fólk á reiðhjólum og gangandi vegfarendur, jafnvel með barnavagna. Meðfram gönguleiðunum er umferð bíla mjög hröð, ekki síst þegar ökumenn koma að grænu ljósi. Oft hefur mátt litlu muna að gangandi eða hjólandi hafi hreinilega hrakist út götuna og í veg fyrir bíl. Þá hafa vegfarendur fengið yfir sig aurslettur frá bílum sem aka hratt þarna um þegar blautt er, enda engin undankomuleið, þegar fólk er á miðri leið þarna yfir.
Vikudagur leitaði til Birgis Guðmundssonar svæðisstjóra Norðaustursvæðis hjá Vegagerðinni og hann sagði að þetta hafi verið skoðað lauslega í framhaldi af þessum ábendingum. Hjá Vegagerðinni séu menn sammála því að þarna þurfi eitthvað að gera, enda séu þessar brýr börn síns tíma. Önnur brúin var byggð 1955 en hin 1971 og aðrar kröfur þá um umferð gangandi og hjólandi, að sögn Birgis.
Fyrstu niðurstöður benda til þess að það geti orðið erfitt að reyna afskermun. Akbrautirnar á brúnum eru 7 m og mega ekki við þrengingu og gangbrautirnar eru 2,5 og 2,15 m og mega heldur ekki við þrengingu. Gangbraut ætti væntanlega að vera 3 m í dag og akbraut a.m.k. 8 m og hugsanlega ætti þetta að vera enn breiðara á brúnum. Við teljum því að hugmyndir um vegrið/skermun milli akbrautar og göngustígs gangi ekki upp. Við teljum því að líklega sé ekki unnt að ná neinni lausn nema byggð verði sérstök brú/brýr fyrir gangandi/hjólandi umferð. Til þess þarf sérstaka fjárveitingu (sveitarfélag ? - ríki ?) sem ekki er auðsótt í dag. Við munum taka þetta mál til viðræðu við Akureyrarbæ á næstunni til að skoða lausnir á málinu, segir Birgir.
Helgi Már Pálsson bæjartæknifræðingur Akureyrarbæjar segir að brýrnar séu í eigu Vegagerðarinnar og að það sé því alfarið hennar að bæta úr því sem betur má fara. Á þetta hafi Vegagerðinni verið bent.