Aðalverktaki við bygginguna er Virkni ehf. Bygging jarðgerðarstöðvarinnar er samvinnuverkefni atvinnulífs og sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu. Stærstu hluthafar í Moltu ehf. eru Flokkun ehf., Gámaþjónustan hf., Kjarnafæði hf., Norðlenska matborðið ehf., Preseco Oy., Sagaplast ehf., Tækifæri hf. og Þverá Golf ehf. Nýlega var boðið út nýtt hlutafé í Fokkun ehf. að upphæð 50 milljónir króna og hefur Akureyrarbær þegar samþykkt að auka sinn hlut, samtals er þar um að ræða rúmar 37 milljónir króna. Sveitastjórn Grýtubakkahrepps ákvað á fundi í vikunni að óska eftir nánari upplýsingum frá Flokkun og fór fram á að efnt yrði til hluthafafundar "til að skýra þessa miklu hækkun," segir í bókun sveitarstjórnar. Hlutur Grýtubakkahrepps í hlutafjáraukningu nemur tæplega 600 þúsund krónum.
Eiður Guðmundsson framkvæmdastjóri Flokkunar segir að hlutafjáraukning nú sé tilkomin vegna efnahagsástands í þjóðfélaginu, byggingakostnaður hafi hækkað umfram áætlanir sem og tæki og fleira. "Við látum samt engan billbug á okkur finna, höldum okkar striki og erum á fullu skriði í þessum framkvæmdum," segir Eiður. Hann gerir ráð fyrir að verksmiðjuhúsið verði fokhelt í næsta mánuði, eða fyrir áramót og þá segir hann að verkáætlun geri ráð fyrir að verksmiðjan geti hafið starfsemi í febrúar
Tæknimenn frá Preseco Oy, hafa verið á staðnum að undanförnu til að stjórna uppsetningu vélbúnaðarins, en hluta hans þarf að koma fyrir áður en húsið verður reist. Síðastliðinn laugardag voru jarðgerðartromlur alls 6 stykki fluttar fram á Þverá og komið fyrir á sínum stað. Hver tromla er 16 m löng, vegur rúm 20 tonn og rúmar 125 rúmmetra.
Strax frá upphafi mun jarðgerðarstöðin taka við öllum slátur- og fiskúrgangi sem til fellur á Eyjafjarðarsvæðinu og jafnvel víðar. Frá sama tíma verður jarðgerð á Glerárdal hætt og léttir það verulega á urðunarstaðnum og umhverfisáhrifum frá honum. Urðun á Glerárdal náði hámarki árið 2002 og var þá 21.500 tonn en hefur verið minnkandi frá þeim tíma. Munar þar mest um jarðgerð sláturs og fiskúrgangs. Áætlað er að í ár verði urðuð um 17.000 tonn af úrgangi en 4.500 tonn fari til jarðgerðar.