Benedikt fær viðbrögð við skrifum sínum og er þar hvattur til að bjóða sig fram til varaformanns flokksins. Benedikt kemur einnig inn á framboð Árna Páls Árnasonar alþingismanns til embættis varaformanns og segir m.a.: "Velti því fyrir mér hvort um sé að ræða "kapphlaup" um sæti eða stól - eða kannski formannshlutverkið til framtíðar. Árni Páll hefur eflaust marga kosti sem prýða mega stjórnmálamann - hefur "kjörþokka," svo vísað sé í klisju frá uppgangstímanum, en ekki veit ég fyrir víst hvaða áherslur hann stendur fyrir. Hef einhvern veginn á tilfinningunni að "kjörþokkinn einn" muni ekki duga mönnum til ótvíræðs stuðnings í forystukjöri flokkanna á næstunni. Kannski er Árni Páll nægilega óskrifað blað í pólitíkinni til þess að Samfylkingarfólk sé tilbúið að líta á hann sem "æskilega endurnýjun" - - eins og nú er hrópað eftir. Umfram allt vil ég sjá fólk í forystu Samfylkingarinnar leggja fram skýra framtíðarsýn og jákvæða uppbyggingarstefnu - þar sem lausnir á hversdagslegum vanda fjölskyldnanna og heilbrigðs atvinnurekstrar eru rammaðar inn í róttæka hugmynd um þróun og umbætur," segir Benedikt.