Alls flutti fyrirtækið inn tæplega 3000 tonn af áburði nú í vor er það í fyrsta skipti sem það stendur í innflutningi á áburði. Áburðinn flytja þeir heim á bæi og segir Gunnar að þeir hafi til umráða hagstæða flutningabíla með mikilli burðargetu sem auki hagkvæmni flutninganna. Bróðurpartur áburðarins fer til bænda í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum en einnig fer nokkurt magn annað, m.a. í Skagafjörð, Húnavatnssýslu, vestur á Strandir og líka austur á Hérað.
Gunnar segir að viðtökur hafi verið einkar góðar og viðbúið að þeir bræður haldi áfram næsta vor, en áður hafa þeir t.d. flutt inn rúllubaggaplast, hið ódýrasta sem bændum bauðst að kaupa í fyrravor. „Við teljum okkur geta fullyrt að með tilkomu okkar inn á þennan markað hafi áburðarverð til bænda lækkað um hálfan milljarð," segir Gunnar en heildarmarkaður fyrir áburð hér á landi er um 50 þúsund tonn. Vísar hann til þess að Fóðurblandan hafi síðastliðið haust boðað 70-100% hækkun á áburði milli áranna 2008 og 2009, en um áramót hafi fyrirtækið boðið tonnið á 72-74 þúsund krónur. Búvís var fyrst fyrirtækja til að tilkynna um áburðarverð nú í vetur og í kjölfarið lækkaði verð hjá öðrum innflutningsaðilum verulega. „Við teljum okkur geta rökstutt það að okkar útspil hafi valdið því að áburðarverð hefur lækkað hér á landi umtalsvert, enda verðum við varir við að þeir sem við okkur skipta eru ánægðir. Þannig að það eru allar líkur á að við munum halda ótrauðir áfram," segir Gunnar.