Burt með ofbeldi, jafnari lífskjör – betra líf

Tryggi Gíslason skrifar

Íslenskt þjóðfélag hefur fengið miklu áorkað undanfarna öld. Fyrir einni öld áttu Íslendingar einn lærðan skóla, voru fátækasta þjóð í Evrópu og barnadauði mestur allra landa. Nú eru Íslendingar með ríkustu þjóðum, lægstan barnadauða í öllum heiminum og menntun okkar sambærileg menntun annarra þjóða í Evrópu.

Margt gott er enn verið að gera og þjóðin sækir fram til betra mannlífs, ekki bættra lífskjara heldur jafnari lífskjara - og þó einkum til aukinna lífsgæða. Orðið lífsgæðakapphlaup fékk á sig neikvæðan stimpil þótt orðið lífsgæði sé jákvætt og merkir einfaldlega gott líf - þýðing á danska orðinu livskvalitet.

Þrennt er það þó einkum sem mér þykir afar aðkallandi nú, þegar þjóðin er að rísa á fætur eftir hrunið og sækir fram til betra lífs.  Í fyrsta lagi að hjálpa fíklum og þeim sem hafa ánetjast eitri. Í öðru lagi finna viðunandi leiðir fyrir þá sem veikst hafa af geðsjúkdómum - og í þriðja lagi að vinna gegn hvers konar ofbeldi, einkum ofbeldi á konum og börnum og ekki síst kynferðislegu ofbeldi.

Fréttir um hörmulegar afleiðingar af notkun fíkniefna og ofbeldi af ýmsu tagi eru óhugnanlegar. Fyrir aldarfjórðungi heyrðist ekki minnst á kynferðislegt ofbeldi, ekki vegna þess að það væri ekki fyrir hendi, heldur vegna þess að við vildum ekki vita af því og lokuðum augunum, þögguðum það niður. Og ofbeldi virðist sífellt að aukast.

Viðtal við konu í sjónvarpsþættinum Návígi 16. nóvember 2010 var sorglegt dæmi um ofbeldi og misrétti af versta tagi. Slíkt framferði, sem hún lýsti með varfærnislegum orðum og með sorg í augum, tók mjög á mig og má ekki - og á ekki að eiga sér stað.

Ríkisvaldið og almenningur og hvers konar góð samtök verða að taka höndum saman og koma í veg fyrir slíkt og þvílíkt. Ríki og sveitarfélög verða að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi, því að fjölskyldur fíkla, fjölskyldur þeirra sem veikjast af geðsjúkdómum, fjölskyldur ofbeldismanna og fjölskyldur þeirra sem verða fyrir ofbeldi megna ekki að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. Með slíkri hjálp gerum við lífið betra.

Höfundur er f.v. skólameistari, málfræðingur og frambjóðandi til stjórnlagaþings nr. 6428.

Nýjast