Alls hafa verið boðaðar komur 66 skemmtiferðaskipa til Akureyrar næsta sumar, eða 10 fleiri en sl. sumar, samkvæmt upplýsingum Péturs Ólafssonar skrifstofustjóra Hafnasamlags Norðurlands. Fimm skemmtiferðaskip munu jafnframt hafa viðkomu í Grímsey. Með skemmtiferðaskipunum sl. sumar komu tæplega 50.000 farþegar en Pétur gerir ráð fyrir að farþegum muni fjölga um tæplega 40% næsta sumar, miðað við stöðuna nú og verði hátt í 70.000 talsins.
Pétur segir að flest skipanna sem væntanleg eru næsta sumar hafi komið hingað áður en einnig sé von á nýjum risaskipum til bæjarins. Stærsta skipið sem boðað hefur komu sína heitir Chelebrity Eclipse, það er 122.000 tonn að stærð, um 317 metrar að lengd og tekur um 3.000 farþega. Pétur er því bjartsýnn fyrir komandi sumar.
Pétur gerir ráð fyrir því að farþegum skemmtiferðaskipa muni fjölga jafnt og þétt á næstu árum, enda séu sífellt stærri skip að boða komur sínar til Akureyrar. Árið 2013 er t.d. von á skemmtiferðaskipi til bæjarins, sem er 137.000 tonn að stærð og 311 metrar að lengd. Pétur gerir ráð fyrir því að eftir 10 ár, verði fjöldi farþega með skemmtiferðaskipum sem koma til Akureyrar orðinn 150.000 talsins og að í áhöfn skipanna verði um 60.000 manns.