Það er að rætast vel úr þessu öllu saman og mér líst vel á, segir Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli. Útlitið var fremur dapurlegt fyrir síðustu helgi, þá var hvert hitametið á fætur öðru slegið en eftir að fór á kólna á laugardag fór allt í gang. Guðmundur Karl segir að snjóvélar hafi í kjölfarið verið ræstar og nú sé búið að framleiða heilmikinn snjó, og við erum enn á fullu í því, segir hann. Skíðafæri er nú mjög gott í Hlíðarfjalli og allar helstu skíðaleiðir færar. Það er bara vetrarlegt um að litast hjá okkur.
Guðmundur Karl segir að um liðna helgi hafi fólk farið að streyma í fjallið og undanfarin ár hafi fólk komið helgina fyrir Pálmasunnudag og verið fram að páskum, þá taki annar hópur við. Það helgast af því að ekki er til staðar nægt gistirými fyrir alla á svæðinu, sumir koma því með fyrra fallinu en aðrir dvelja yfir páskana. Það kemur því mjög mikið af fólki á svæðið þessa dagana og er mjög ánægjulegt, segir hann.
Ég er mjög bjartsýnn á að þetta verði prýðilegir páskar í Hlíðarfjalli, það bendir allt til þess, segir Guðmundur Karl. Skíðasvæðið er opnað kl. 9 á morgnana og er opið til kl. 16. Skíðaskóli barnanna er opin frá kl. 10 til 14 alla daga og er fyrir börn á aldrinum 5 til 12 ára.
Guðmundur Karl segir að þar sem búist er við miklu fjölmenni á næstu dögum verði sá háttur hafður á að fólk geti lagt bílum sínum við rætur Hlíðarfjalls, á svæði hjá Bílaklúbbi Akureyrar og verði ferjað upp á skíðasvæðið. Við gerum það ef þörf krefur, segir hann.