Í Jarðböðunum verður líka mikið um að vera en þangað hafa jólasveinarnir komið á hverju ári í árlegt jólabað. Ekki eru sveinarnir allir jafn hrifnir af baðinu og var Stúfur leiddur í böndum til baðsins á síðasta ári og er reiknað með að hann muni streitast á móti líka núna og svo hefur gengið illa að fá Askasleiki til að þvo meira af sér heldur en bara tærnar. Jólasveinarnir taka síðan á móti gestum alla daga fram að jólum á Hallarflötinni í Dimmuborgum á milli kl. 13 og 15.
Auk áðurgreindra viðburða má geta þess að um helgina eru jólahlaðborð, bæði hádegis- og kvöldverðar, opin kaffihús, handverk til sölu og fjölmargt annað í boði sem og um allar helgar fram að jólum þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í Mývatnssveit „töfralandi jólanna".