Hæstiréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og sýknaði ALMC, sem hét áður Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki, af kröfum Stapa lífeyrissjóðs um greiðslu tæpra 5,2 milljarða króna, eins og fram kemur hér að neðan. Um er að ræða kröfur, sem var lýst of seint í bú bankans vegna mistaka lögmannsstofu. Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri Stapa, segir að dómurinn hafi í sjálfu sér engin áhrif á stöðu sjóðsins, þar sem búið var að skrifa kröfuna niður að fullu á sínum tíma. Það hefði haft jákvæð áhrif ef Hæstiréttur hefði staðfest niðurstöðu héraðsdóms, sagði Kári Arnór. Hann sagðist eiga eftir að lesa dóminn betur en sagði að niðurstaða Hæstaréttar væri endanleg og að henni yrði ekki breytt.