Lárus segir að þeim félögum hafi verið tekið alveg einstaklega vel í Færeyjum. "Þetta er búið að vera alveg stórkostlegt ævintýri hingað til," sagði Lárus. Fjölmargir gestir hafa komið um borð í Húna í Færeyjum og hafa áhafnarmeðlimir notað tækifærið og kynnt bátinn og félagsskapinn og Akureyri sem vænlegan stað til að heimsækja. Í dag fengu þeir m.a. bæjarstjórann í Þórshöfn, Hedin Mortensen, í heimsókn og segir Lárus að Steini Pjé hafi fært honum siginn fisk og hamsatólg að gjöf, einnig kynningarbæklinga um Akureyri og bjór frá Kalda og Vífilfelli. "Steini hefur eldað ofan í áhöfnina og staðið sig mjög vel," sagði Lárus. Hægt er að fylgjast með siglingu Húna II á http://www.marinetraffic.com/ais/.
Lárus List er ekki aðeins að sigla með Húna í tenglum við strandmenningarhátíðina, því hann opnar myndlistarsýningu sem hann kallar; Sail Húsavík, í Þekkingasetrinu á Húsavík sunnudaginn 17. júlí kl. 14.00. Sýningin er hluti af strandmenningarhátíðinni og hún stendur til 24. júlí. Lárus hefur haldið fjölda einkasýninga hérlendis og erlendis og í tilefni sýningarinnar gefur Lárus út eftir sig hljóðverk sem hann kallar Listmálara Sinfóníu, (The Painter´s Symphony). Myndmál í verkunum á sýningunni er tengt bátum, sjónum, en Lárus er áhugamaður um strandmenningu og sérstaklega báta. Lárus á ættir sínar að rekja til Húsavíkur en amma hans Guðný Hjálmarsdóttir, sem hann tileinkar sýninguna, var fædd og uppalin á Húsavík. Allir eru velkomnir en sýningin er opin frá 9-18 virka daga og 14-18 um helgar.