Búið að tryggja áframhaldandi rekstur N4

Jón Steindór Árnason stjórnarformaður fjölmiðlafyrirtækisins N4 segir að búið sé að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækisins. Eins og fram hefur komið hefur rekstur N4 staðið tæpt en stjórn fyrirtækisins gaf út heimild til að leita að auknu hlutafé inn í fyrirtækið. 

Rekstur N4 stóð ekki undir sér síðustu sex mánuði í fyrra og því þurfti að grípa til uppsagna og skipulagsbreytinga á rekstri félagsins. Þremur starfsmönnum N4 var sagt upp störfum um áramót vegna rekstrarerfiðleika. 

Jón Steindór segir að breytingar hafa orðið á rekstrarfyrirkomulagi fyrirtækisins.

„Við höfum t.d. farið í það að fjölga verktökum og fækka þannig launþegum. Ég á von á því að við förum meira í þá átt. Þannig getum við brugðist betur við þegar á móti blæs,“ segir Jón Steindór. Hann segist ekki eiga von á því að sjónvarpsdagskrá N4 muni taka sérstökum breytingum.

Stærstu hluthafar N4 eru KEA og fjárfestingarsjóðurinn Tækifæri sem meðal annars er í meirihlutaeigu Stapa lífeyrissjóðs,
KEA og Íslenskra verðbréfa. Stjórn N4 fékk fengið heimild til að auka hlutaféð um 50 milljónir en fyrirtækið velti um 200 milljónum á síðasta ári.

Nýjast