Búið að semja við kennara

Félag grunnskólakennara og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa komist að samkomulagi. Skrifað var undir nýjan kjarasamning klukkan 18:15 í kvöld. Ekki fæst uppgefið hvað felst í samningunum.
Samninganefnd Félags grunnskólakennara og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa fundað stíft undanfarnar vikur hjá ríkissáttasemjara. Í gær fóru samninganefndirnar yfir málin sitt í hvoru lagi. Til stóð að deiluaðilar hittust hjá ríkissáttasemjara klukkan tvö í dag en fundinum var flýtt og hófst klukkan níu í morgun, síðan hefur verið fundað stíft þar til skrifað var undir klukkan 18:15
Kennarar höfðu boðað að þeir myndu leggja niður störf og ganga út klukkan 12:30 á morgun ef ekki hefði samist fyrir þann tíma. Það hefði verið í þriðja sinn sem grunnskólakennarar legðu niður störf síðan deilan hófst.