Bubbi Morthens blandar sér í umræðuna um vínsölu í Hlíðarfjalli

Samsett mynd. Stærri mynd: Auðunn Níelsson. Innfelld mynd af Bubba Morthens: Skjáskot/Rúv
Samsett mynd. Stærri mynd: Auðunn Níelsson. Innfelld mynd af Bubba Morthens: Skjáskot/Rúv

Bubbi Morthens hefur blandað sér í umræðuna um áfengissölu í Hlíðarfjalli en Fréttablaðið ræddi við Bubba.

Hverjum dettur í hug slík fásinna að bjóða börnum uppá þá áhættu að fólk sem hefur sett áfengi inn fyrir varir hvað þá drukknir einstaklingar séu í brekkunni?“ Hefur Fréttablaðið eftir tónlistarmanninum.

Eins og greint er frá í prentútgáfu Vikublaðsins hefur Sölvi Antonsson, veitingamaður, óskað eftir leyfi til að selja áfengi á skíðahótelinu í Hlíðarfjalli og í Strýtuskála. Bæjarráð Akureyrarbæjar tók vel í erindið og hefur óskað eftir umsögnum.

Ekki eru allir á eitt sáttir um áfengissölu í Hlíðarfjalli en Sóley Björk Stefánsdóttir, áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna í bæjarráði hefur ekki legið á skoðunum sínum um áfengissölu í Hlíðarfjalli.  Hún segir m.a. að slíkt leyfi stríði gegn forvarnastefnu Akureyrarbæjar.

Ég tel sölu áfengis í Hlíðarfjalli ganga harðlega gegn forvarnastefnu Akureyrarbæjar og á engan hátt viðeigandi á þessu svæði þar sem ungt fólk, börn og fjölskyldur hafa hingað til notið útivistar og samveru sem er að mínu mati mikilvægur þáttur í þjónustu við íbúa bæjarins. Þessi ákvörðun samræmist á engan hátt því ákvæði í samstarfssáttmála bæjarstjórnar að setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang. Vert er að benda á að mikil hætta getur skapast í brekkunum sé skíðafólk ekki með fulla stjórn á hreyfingum sínum,“ segir Sóley Björk í bókun sem hún lagði fram á fundi ráðsins.

Skiptar skoðanir eru á meðal bæjarbúa á Akureyri en afstaða Bubba Morthens er skýr. „Þetta er algerlega sturluð hugmynd,“ segir hann.


Nýjast