Brýnt að uppræta skömm fyrir því að leita sér hjálpar

Birgir Örn Steinarsson sálfræðingur er forstöðumaður Píeta á Akureyri.
Birgir Örn Steinarsson sálfræðingur er forstöðumaður Píeta á Akureyri.

Píeta samtökin opnuðu útibú á Akureyri 1. júlí sl. það fyrsta utan höfuðborgarsvæðisins. Forstöðumaður segir mikla eftirspurn á landsbyggðinni eftir aðstoð vegna sjálfsvígshugsana.

Píeta eru forvarnarsamtök gegn sjálfsvígum og sjálfskaða sem hafa rekið starfsstöð í Reykjavík frá því í apríl 2018. Starfsemin er rekin að fyrirmynd og eftir hugmyndafræði Pieta House á Írlandi. Samtökin bjóða fólki sem glímir við sjálfsvígshugsanir ókeypis aðstoð frá fagfólki.

Birgir Örn Steinarsson sálfræðingur er forstöðumaður samtakanna á Akureyri en Vikublaðið ræddi við hann á dögunum. Birgir segir að samtökin séu alfarið rekin á styrkjum og með þeim hefur tekist að fjármagna reksturinn á Akureyri út þetta ár a.m.k. „Við vonumst auðvitað eftir því að vera lengur, eins lengi og þörf er á,“ segir hann og bætir við að þegar allt komi til alls, þá sé þessi þjónusta upp á samfélagið komin. „Ef fólk vill halda þessari þjónustu þá þarf að styrkja hana. Þannig tryggjum við að þjónustan sé í boði fyrir þá sem þurfa á henni að halda.“

Þá segir Birgir að Píeta samtökunum hafi verið afar vel tekið á Akureyri og hafi all margir styrkt samtökin frá því starfstöðin á Akureyri var opnuð. "Það hafa þó nokkrir styrkir runnið  sérstaklega í starfið hér fyrir Norðan. Ég held að það sé óhætt að segja að við séum búin að tryggja starfið okkar hér út þetta ár.“

Einstaklingar geta lagt inn frjáls framlög á reikning samtakanna og þá er einnig hægt að skrá sig fyrir föstum greiðslum mánaðarlega í gegnum heimasíðu Píeta á Íslandi.

 Þörfin sannað sig

Birgir segir ekki nokkurn vafa á því að þörfin fyrir þessa þjónustu sé til staðar á Norðurlandi.  „Það er algjörlegar þörf á þessu og við erum að leita hægt og rólega að fleiri starfsmönnum. Til okkar á síðasta ári leituðu til 37 manns. Það eru einstaklingar sem eru annað hvort að leita til okkar vegna sjálfsvígshugsana eða hafa misst einhvern nákominn úr sjálfsvígi en einnig einstaklingar sem eru aðstandendur fólks í sjálfsvígshættu,“ útskýrir Birgir og bætir við að nú séu 22 mál í gangi hjá samtökunum á Akureyri.

Í dag er það Birgir sjálfur sem sinnir skjólstæðingum ásamt einum öðrum starfsmanni. „Ef eitthvað þá er bara mjög mikil þörf á því að stækka og ráða fleiri inn og við munum gera það. Annars er þetta að ganga svipað og við reiknuðum með. Við erum orðin tvö eins og er en ég vonast til þess að við fjölgum um einn starfsmann á vormánuðum.“

Auk einstaklingsviðtala hefur verið boðið upp á stuðningshópa frá því í september.

„Stuðningshóparnir eru fyrir fólk sem hefur misst nákomna úr sjálfsvígi. Það hefur fjölgað í þeim hópum með hverjum fundi frá því við fórum af stað með þá. Þannig að mér finnst Akureyringar vera leita til okkar. Ég vil samt taka það skýrt fram að við erum ekki bara að þjónusta Akureyringa, heldur allt Norðurland. Við höfum verið með skjólstæðinga frá Húsavík, Siglufirði, Blönduósi og fleiri stöðum,“ segir Birgir.

 Áhrif heimsfaraldurs

Birgir segir erfitt að fullyrða nokkuð um áhrif Covid faraldursins á tíðni sjálfsvíga eða sjálfsvígshugsana hjá fólki.  „Ég get alveg staðfest að félagsleg einangrun hefur áhrif á fólk en hversu mikil áhrif það hefur á sjálfsvígshættu get ég ekki alveg sagt til um. Það verður Landlæknisembættið að tjá sig um. En vissulega hefur þetta áhrif. Það er alþekkt að fátt eða ekkert fer jafn illa með andlegt jafnvægi fólks eins og félagsleg einangrun.“

 Engin skömm í því að biðja um hjálp

Starfið hefur gengið vel að sögn Birgis þetta fyrsta ár samtakanna á Akureyri. Hann segist þó finna fyrir því að Akureyringar og Norðlendingar séu smeykari við að leita sér aðstoðar. „Eðlilega kannski, þetta er nýtt af nálinni þannig séð. Mér finnst svona heldur að Akureyringar hafi átt erfiðara með að sækja sér hjálpar en fyrir sunnan. Mér hefur soldið fundist að hún lifi góðu lífi þessi hugmynd um að það sé einhvers konar skömm að leita sér aðstoðar. Fólk í smærri samfélögum hefur skiljanlega meiri áhyggjur af því hvað fólk í nærumhverfinu er að segja um mann. Það hindrar oft fólk í því að leita sér aðstoðar, sem er svo mikil synd. Það er nú samt einu sinni þannig að það eru ekki jafn margir og maður heldur að pæla í hvað maður er að gera. A.m.k aldrei jafn margir og maður heldur. Það er hægt að ganga út frá því sem vísu að það hugsar engin jafn mikið um mann sjálfan og maður sjálfur,“ segir Birgir að lokum.

/epe


Athugasemdir

Nýjast