Brýnt að bæta æfingaaðstöðu Óðinsfélaga í sundlaugunum

Yfir 50 börn bíða þess nú að fá að æfa sund með Sundfélaginu Óðni, en æfingaaðstaða í sundlaugum bæjarins býður ekki upp á að fleiri iðkendur séu teknir inn.  Aðstaðan er óviðunandi að mati forsvarsmanna félagsins.  

Þeir hafa óskað eftir fundi með  Íþrótta- og tómstundaráði Akureyrar til að fara yfir mál félagsins, en þess hefur verið farið á leit við ráðið að það aðstoði félagið við að fá viðunandi félagsaðstöðu við Sundlaug Akureyrar og æfingaaðstöðu í sundlaugum bæjarins. Ásta Birgisdóttir formaður Sundfélagsins Óðins segir að um 250 iðkendur séu nú innan raða þess, en vart hafi verið hægt að taka inn nýja félaga síðastliðin tvö ár.  Yfir 50 börn séu nú á biðlista eftir að plássi, en þau eru af skornum skammti.

"Það virðist vera að þeir sem hefja æfingar líki vel og brottfall er afar lítið, sem vissulega gleður okkur," segir  hún.  Það valdi á hinn bóginn því að erfitt sé að færa iðkendur upp um hópa og nú sé svo komið að ófremdarástand ríki í Sundlaug Akureyrar.  Fimm mismunandi hópar æfi þar frá kl. 16 til 21, í tveimur þeirra séu um 40 börn sem deila þurfi með sér fjórum brautum.

Þá bendir Ásta á að ekkert pláss sé í lauginni til að geyma æfingabúnað elstu sundiðkendanna og hafi hann verið á hrakhólum um langt skeið.  Um sé að ræða dýran búnað sem börnin eigi sjálf en ekki sé heppilegt að þau taki hann með sér heim að lokinni hverri æfingu.

Ásta nefnir einnig að ekki sé til fullkominn tímatökubúnaður í Sundlaug Akureyrar, slíkur hafi verið fenginn að láni sunnan úr Reykjavík en sé nú ónýtur.  Aldursflokkameistaramót verði haldið á Akureyri á næsta ári og sem og Landsmót  UMFÍ og því sé nauðsynlegt að bregðast skjótt við og bæta úr.

Sundfélagið Óðinn hefur lítið herbergi til afnota í íþróttahúsinu í Laugagötu, en það rúmar varla alla stjórnarmenn á fundi og því sé einnig brýnt að bæta úr þeim vanda og bjóða félaginu upp á viðunandi aðstöðu.

Nýjast