Brynhildur nýr stjórnarformaður Góðvina
Á aukafundi Góðvina Háskólans á Akureyri (HA) fyrr í þessum mánuði var kosinn nýr stjórnarformaður í stað Njáls Trausta Friðbertssonar. Hann sagði stjórnarsæti sínu lausu vegna anna. Ennfremur lét Óskar Þór Vilhjálmsson af störfum í varastjórn.
Í stað Njáls kemur Brynhildur Pétursdóttir, fyrrverandi alþingiskona og meistaranemi við HA og Þorsteinn Gunnarsson, fyrrverandi rektor HA og starfsmaður Rannís tók sæti Óskars í varastjórn.
Góðvinir eru samtök nemenda sem brautskráðir eru frá Háskólanum á Akureyri og annarra velunnara skólans. Markmið samtakanna eru að auka tengsl skólans við fyrrum nemendur sína og styðja við uppbyggingu skólans eftir fremsta megni.
Á vef HA segir að starfsemi Góðvina muni fara á flug á afmælisári háskólans. Það hafi verið ákveðið að blása til alumni deildar að erlendri fyrirmynd þar sem fyrrverandi nemendur standa vörð um hagsmuni háskólans og sjá um skipulagningu endurfunda fyrrverandi nemanda.
„Nýútskrifaðir kandídatar og brautskráðir fyrir 2, 5, 10, 15 og 20 árum munu hafa fengið greiðsluseðla í heimabankann sinn en með greiðslunni gerast þeir félagar í Góðvinum. Krafan fellur sjálfkrafa niður um áramót,“ segir jafnframt á vefnum.
Stjórn og varastjórn Góðvina
Brynhildur Pétursdóttir, Eyrún Elva Marinósdóttir, Elva Gunnlaugsdóttir, Agnes Eyfjörð, Helga Margrét Mason Jóhannesdóttir, Katrín Árnadóttir, Aníta Einarsdóttir, Kristjana Hákonardóttir, Guðrún Þóra Hallgrímsdóttir, Þorsteinn Gunnarsson, Árni V. Friðrisson