Brotamálum fækkar í umdæmi lögreglunnar á Akureyri

Kynferðisbrotum og fíknaefnamálum fjölgaði á milli ára en umferðarlagabrotum fækkaði mikið.
Kynferðisbrotum og fíknaefnamálum fjölgaði á milli ára en umferðarlagabrotum fækkaði mikið.

Hegningarlagabrotum, sérrefsilagabrotum og umferðarlagabrotum í málaskrá umdæmis lögreglunnar á Akureyri, heldur áfram að fækka á millli ára, samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir síðasta ár. Alls voru skráð 1.807 mál í þessum brotaflokkum í fyrra en fjöldi slíkra mála var 1.882 árið 2010. Brotum hefur fækkað árlega frá árinu 2007, þegar fjöldinn var rúmlega 4.250 mál. Daníel Guðjónsson yfirlögregluþjónn segir að fækkun brota skýrist að mestu leyti af mikilli fækkun umferðarlagabrota frá árinu 2007. Hann segir megin ástæðurnar vera minnkandi umferð, hægari akstur vegna hárra sekta og umtalsvert minna eftirlit lögreglu á vegum, vegna minni fjárheimilda. “Þannig hefur akstur lögreglubíla minkað um þriðjung síðustu ár og færri lögreglumenn eru að jafnaði á vakt þannig að minni tími er til umferðareftirlits,” segir Daníel.

Auðgunarbrotum fækkaði á milli áranna 2011 og 2010, voru 263 í fyrra en 292 árið áður. Kynferðisbrotum fjölgaði hins vegar og hafa ekki verið fleiri frá árinu 2007. Í fyrra voru kynferðisbrotin 24 en 19 árið 2010. Líkamsárásarmálum fækkaði á milli ára, sem og mál tengd innbrotum og þjófnaði.

Hins vegar fjölgaði fíkniefnamálum nokkuð á milli ára, fíkniefnabrotin voru 137 í fyrra en 115 árið áður. Árið 2007 voru fíkniefnabrotin 78, 118 árið 2008 og 120 árið 2009. Töluvert hefur verið um að ökumenn hafi verið teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og fjölgaði slíkum brotum nokkuð á milli ára. Árið 2011 voru slík brot 91 en árið áður 68. Árið 2007 voru slík mál “aðeins” 26.

Daníel segir að reynt hafi verið að verja þann þátt sem snýr að fíkniefnamálum eins og kostur er fyrir niðurskurði og að reynt hafi verið að leggja áherslu á þann málaflokk. Fíkniefnaneysla virðist síst fara minkandi og mikil aukning hefur orðið á akstri undir áhrifum ávana og fíkniefna og er það hluti af skýringunni. Akstur undir áhrifum áfengis hefur á móti lækkað mikið,” segir Daníel.

Mun fleiri ökumenn voru teknir fyrir að kitla pinnan ógætilega á síðasta ári en árið áður. Í fyrra voru brot á ökuhraða alls 381 en 328 árið 2010. Slíkum málum hefur þó fækkað umtalsvert frá árinu 2007, þegar þau voru 1494. Árið 2008 voru brot á ökuhraða 956 og árið 2009 alls 760. Heldur færri voru teknir fyrir ölvun við akstur í fyrra en árið 2010 eða 55 í fyrra á móti 60 árið áður. Þá voru skráð 262 umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Akureyri á  síðasta ári á móti 319 árið 2010. Eitt mannslát varð í umferðinni í fyrra, þegar ekið var á mann á Eyjafjarðarbraut vestari í byrjun árs. Líkamstjón vegna slysa voru 173 og vinnuslys, þar sem meiðsli urðu voru 17 í fyrra. Þá eru skráðir 29 brunar, 4 sjóslys og tvö flugslys á síðasta ári.

 

 

Nýjast