Brian Gilmour með nýjan samning hjá KA
KA hefur gert nýjan eins árs samning við skoska miðjumanninn Brian Thomas Gilmour, en hann kom til KA í félagaskiptaglugganum í júlí sl. og spilaði átta leiki með félaginu út tímabilið. Þetta kemur fram á heimasíðu KA. Brian Gilmour er 24 ára gamall en hann hóf knattspyrnuferilinn hjá hinu þekkta liði Glasgow Rangers og síðan hefur hann spilað með skosku liðunum Clyde, Queen of the South og Stenhousemuir, enska liðinu Lincoln City og finnska liðinu FC Haka, en með því liði spilaði Gilmour m.a. í Evrópukeppninni gegn danska liðinu Bröndby keppnistímabilið 2008-2009. Gilmour hefur einnig spilað með landsliðum Skotlands U-19 og U-20.
Ég er gríðarlega ánægður með að KA hafi náð að framlengja samning við Brian út næsta tímabil. Hann kom með allt aðra vídd í okkar leik seinnipart sumars og það var mjög gaman að sjá hvaða áhrif hann hafði á strákana í liðinu. Þegar við fórum að ræða við Brian um að vera á næsta tímabili kom það þægilega á óvart hve ánægður hann var hjá félaginu og hve mikla áherslu hann lagði á að spila með liðinu á næsta ári. Það var því forgangsatriði að klára samning við hann sem tókst og það verður mjög gott fyrir liðið að fá hann inn í undirbúningstímabilið, segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA á heimasíðu félagsins.