Breytt stjórnskipulag Háskólans á Akureyri

Háskólaráð Háskólans á Akureyri samþykkti í dag nýjar reglur fyrir skólann og nýjar reglur fyrir háskólafund. Breytingar á reglum um háskólafund fela í sér fjölgun fulltrúa kennara og stúdenta á háskólafundi. Meginefni þeirra breytinga sem reglur fyrir háskólann kveða á um fjalla um stjórnskipulag háskólans. Akademísk starfsemi háskólans verður eftirleiðis skipulögð í einingum sem nefnast fræðasvið og deildir.  

Samkvæmt þessu skiptist Háskólinn á Akureyri í þrjú fræðasvið: Heilbrigðisvísindasvið, hug- og félagsvísindasvið, og viðskipta- og raunvísindasvið. Gert er ráð fyrir að innan heilbrigðisvísindasviðs starfi hjúkrunarfræðideild og iðjuþjálfunardeild, innan hug- og félagsvísindasviðs starfi félagsvísindadeild, kennaradeild og lagadeild og innan viðskipta- og raunvísindasviðs starfi raunvísindadeild og viðskiptadeild. Yfirmaður fræðasviðs nefnist forseti fræðasviðs og yfirmaður deilda nefnist deildarformaður. 

Þessar breytingar á stjórnskipulagi eru gerðar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Ákveðið hefur verið að fræðasvið háskólans skulu taka til starfa 1. ágúst 2009 samkvæmt þessum reglum en fram til þess tíma hafa fræðasviðin ráðrúm til að vinna að nánari útfærslu á deildaskiptingu. Þessar breytingar eiga ekki að hafa viðbótarkostnað í för með sér, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast