Þorleifur Jóhannsson tók við trommunum seinna þetta sama ár, Helgi Vilberg hætti svo í hljómsveitinni og Gunnar Ringsted kom í staðinn og spilaði með sveitinni þar til hún hætti. Þeir félagar spiluðu í fyrsta skipti opinberlega á fyrsta vetrardag í Menntaskólanum á Akureyri, eftir það urðu þeir eftirsóttir og fengnir til að spila við hin ýmsu tækifæri.
Sævar Benediktsson segir nafnið Bravó sennilega hafa komið til vegna blaðs sem gefið var út á þessum tíma og hét Bravó. Einnig voru þeir allir forfallnir aðdáendur Bítlana og því voru þeir oft kallaðir bítlahljómsveitin Bravó. Þeir náðu fljótt vinsældum vegna ungs aldurs og þegar hlustað er á gamlar upptökur með þeim, þá voru þeir líka góðir. Tækifærin til að spila opinberlega duttu hreinlega upp í hendurnar á þeim og yfirleitt var hringt í þá og þeir beðnir um að koma fram á skemmtunum. Þeir spiluðu aldrei á heilu balli en voru fengnir sem skemmtiatriði, yfirleytt frá hálf tólf til tólf og spiluðu þeir mikið í Sjálfstæðishúsinu. Aðspurður um hvort foreldrar hljómsveitarmeðlima hafi verið sáttir við þetta fyrirkomulag, segir Sævar að allur gangur hafi verið á því.
Bravóbítlarnir voru fengnir til að skemmta í Skíðahótelinu í Hlíðarfjalli um páska. Þar heyrði í þeim maður að nafni Andrés Indriðason. Hann hefur séð eitthvað við strákana því hann tók viðtal við þá og með því viðtali birtist mynd af hljómsveitinni í Morgunblaðinu. Hann tók einnig upp þrjú lög með strákunum sem voru svo spiluð í útvarpsþætti . Andrés fékk þá til að koma til Siglufjarðar að spila og keyrði faðir Þorleifs þá þangað. Þar spiluðu þeir á einum tónleikum og eftir tónleikana biðu stelpurnar í röðum til að fá þá til að skrifa á handleggina á sér, og fannst þeim það alls ekki leiðinlegt, að sögn Sævars. Frá Siglufirði flugu þeir svo með flugvél til Ísafjarðar og upplifðu þeir sig sem sannkallaða bítla við allt þetta umstang.
Spiluðu með Kinks
En stóra ævintýrið var enn eftir, því þeir spiluðu á 10 tónleikum í Reykjavík með bresku hljómsveitinni Kinks, og fengu þeir heilar 3.600 krónur á manninn fyrir það. Þeir lifðu eins og kóngar á hóteli í Reykjavík og pöntuðu sér kók uppá herbergi, sem þeim þótti afar flott. Strákarnir voru svo skammaðir fyrir himinháan reikning því kókið var svo dýrt. En þeir gerðu meira en að spila með Kinks í Reykjavík. Þeir ferðuðust með þeim um landið þar sem hljómsveitarmeðlimir voru að skoða sig um og eyddu þeir t.d. heilum degi með þeim á Þingvöllum. Sævar segir það hafa verið mjög merkilegt fyrir svona unga stráka að fá að upplifa þetta.
Bravóbítlarnir leystust upp en 40 árum seinna voru þeir fengnir til að spila í afmæli bróður Þorleifs, Símonar Jóns Jóhannssonar. Hljómsveitarmeðlimir hittust í hálftíma, æfðu aðeins og slógu svo í gegn í afmælinu. Þetta var þeirra fyrsta framkoma í 40 ár. Eftir þetta fóru þeir að tala um að spila oftar saman og kom það þá til að þeir spiluðu nokkrum sinnum á Græna hattinum fyrir fullu húsi. Þar var fólk í meirihluta sem var í kringum þá á þeirra Bravó árum en einnig komu margir yngri bítlaaðdáendur á tónleikana.
Þegar Sævar talar um það hvernig það var að vera svona frægur á Íslandi, aðeins 12 ára gamall, segir hann að þetta hafi verið mjög spennandi og skemmtilegur tími. Á þessum árum hafi Bítlarnir verið hans uppáhaldshljómsveit og Kinks kom þar á eftir. Hann segir ógleymanlegt að hafa fengið að berja goðin augum, hvað þá að fá að ferðast með þeim og spila með þeim á tónleikum. -RÞ.