Börnin eru það mikilvægasta sem við eigum

Það er víða farið að sjá á leikvöllum bæjarins eins og greinarhöfundur bendir á.
Það er víða farið að sjá á leikvöllum bæjarins eins og greinarhöfundur bendir á.

Nú virðist mér, sem íbúa á Húsavík, að málefni barna og unglinga vilji oft verða útundan hér á bæ. Aðstaða barnanna okkar í frístund að loknum grunnskóla er sprungin og hana verður að bæta, aðstaða unglinga og ungs fólks hvað varðar félagslíf er varla til staðar. Húsnæði íþróttahallarinnar hentar ekki öllum þeim greinum sem þar eru stundaðar.

Leikvellir

 

Á síðustu árum hefur orðið mikil framþróun í íþróttalífinu hér á Húsavík. Fjölbreytt og öflugt íþróttastarf stoppar þó oft á húsnæðinu sem stendur til boða. Get ég þar nefnt fimleikadeild Völsungs, en aðstæður í íþróttahöllinni henta illa fyrir íþróttina þar sem hver tími krefst mikils undirbúnings. Íþróttinni fylgja stór tæki og dýnur sem þarf að setja fram fyrir tíma og taka saman að loknum tíma og þar sem íþróttahöllin er þéttsetin hentar það illa fyrir þann fjölda barna sem vill sækja eða stunda fimleika á Húsavík. Crossfit á Húsavík hefur verið á hrakhólum síðustu ár hvað varðar húsnæði en þau eru farin að bjóða uppá námskeið fyrir börn og væri gaman að sjá þá starfsemi í stærra og betra húsnæði. Húsnæði til íþróttaiðkunar stendur því í vegi fyrir framþróun.

Leikvellir

Góður aðbúnaður fyrir börn og unglinga er forsenda þess að fólk setjist hér að. Með því að hlúa vel að þessum málaflokki gerum við heimabæinn okkar aðlaðandi, hér verður endurnýjun og framþróun með nýrri þekkingu sem kemur með nýju fólki. Við höfum mikinn mannauð í skólakerfinu okkar og erum mjög lánsöm að geta boðið börnunum okkar uppá nám á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Mikið og gott faglegt starf er unnið inni í þessum stofnunum. En það vantar svo mikið annað í umgjörðina og langar mig nú að nefna leikvellina í bænum.

Góð aðstaða til leiks er mjög mikilvæg. Ég veit til þess að gerð var viðhaldsáætlun fyrir leikvelli á Húsavík. Að því að mér skyldist átti að vinna við einn leikvöll á ári. Mér virðist þó sem eitthvað vanti upp á þetta viðhald. Leikvellir í bænum eru margir hverjir í niðurníðslu. Viðhald snýr líka að því að halda einhverju við, halda einhverju í horfinu. Þarna þurfum við að horfa til framtíðar með endurnýjun í huga.

Leikvellir

 

Það skortir ekki fjölda leikvalla, en gæði, viðhald og endurnýjun er annað. Til dæmis er leikvöllurinn á Stórhólnum í slæmu ástandi, sprangaravöllurinn svokallaði á milli Baughóls og Uppsalavegs er í nokkuð góðu standi þó þar standi ennþá leyfar af rennibraut sem nú er að mestu horfin. Aparólóinn við Garðarsbraut þarfnast viðhalds svo sem klifurveggur, vegasölt og sandkassi. Þarna mætti líka nefna leikvöllinn á Túngötu sem má muna fífil sinn fegurri. Það er líka áhugavert að horfa til leiksvæðisins í kringum Borgarhólsskóla. Þar er hoppubelgurinn að vekja mikla lukku en þar sem yngstu börnin leika sér við skólann eru leiktæki af skornum skammti.

Til samanburðar er gott að horfa til leiksvæða við grunnskólann á Blönduósi svo eitthvað sé nefnt, en þar virðast þessi mál sem varða leiksvæði fyrir börn í forgangi. Þar eru auk hoppubelgs, aparóla og stór og falleg klifurgrind með möguleikum á mikilli afþreyingu fyrir börn. Þetta er vinsæl stoppistöð við þjóðveginn fyrir barnafólk frá Húsavík. Enda ný upplifun fyrir börn sem vekur athygli. Þegar straumur ferðamanna til Húsavíkur er eins mikill og raun ber vitni er nauðsynlegt að hér séu leiksvæði fyrir börn. Fjórar rólur og einn hoppubelgur annar ekki eftirspurn, það sást margendurtekið í sumar. Þetta er ekki einungis mikilvægt fyrir okkur sem hér búum og eigum börn heldur er þetta mikilvægt fyrir ímynd samfélagsins í heild.

Leikvellir

Mig langar því að skora á það fólk sem málið varðar innan stjórnsýslunnar á Húsavík að forgangsraða fyrir börnin okkar, hlúa að leikvöllum í bænum og styrkja umgjörðina. Þetta mun kosta pening, það er nokkuð ljóst. Börnin eru það mikilvægasta sem við eigum og þau eru framtíðin sem við byggjum samfélagið okkar á. Peningunum yrði þess vegna vel varið.

Halldór Jón Gíslason

Leikvellir


Athugasemdir

Nýjast