Verulegur verðmunur er á milli verslana og munaði mest tæpum 170% á sykri og tæpum 160% á Ora baunum. Bónus er oftast með lægsta verðið en næst lægsta verðið er í Nettó. Verslunin 10-11 er oftast með hæsta verð en er þó í tveimur tilfellum með lægsta verð; á Rúbín kaffi og Kornax hveiti. Athygli vakti við verðupptöku að 518 g Cheerios pakki í Samkaup Úrval var 28 krónum ódýrari en minni pakkningin 397 g. Það getur því borgað sig að skoða verðmerkingar vel.
Árið 2005 voru svipaðar vörur kannaðar í sömu verslunum. Verðmunur á milli Bónus og Nettó var þá mun meiri en nú eða að meðaltali 26% . Verðmunur í þessari könnun er mun minni og í mörgum tilfellum munar ekki nema nokkrum prósentum á verði.
Verðmerkingar voru víðast hvar til fyrirmyndar og ekkert misræmi var á verðmerkingum á hillukanti og á kassa í Hagkaup. Í Samkaupum Strax var Siríus suðusúkkulaði á lægra verði í kassa en á hillukanti og í Bónus voru tvær vörur á lægra verði á kassa en á hillukanti; Ora baunir og jólaöl. Í Samkaupum Úrval var ein vara ómerkt, jólaöl, og í Nettó var ein vara, AB mjólk, á hærra verði á hillukanti en á kassa. Lélegastar voru verðmerkingar í 10-11. Ein vara var ekki verðmerkt á hillukanti og bæði mjólk og rjómi var dýrari á kassa en á hillukanti. Þá var Neutral sjampó verðmerkt á 629 kr. á hillukanti en kostaði 399 kr. í kassa.
Ekki er tekið tillit til þjónustustigs, vöruúrvals eða opnunartíma verslana. Almennt er verð hærra eftir því sem opnunartími verslana er lengri, segir í fréttatilkynningu.