Bóndi á Norðurlandi sviptur 215 nautgripum

Myndin tengist fréttinni ekki beint
Myndin tengist fréttinni ekki beint

Matvælastofnun hefur svipt Bónda á Norðurlandi nautgripum sínum vegna óviðunandi aðbúnaðar og umhirðu. Lagt var hald á 215 nautgripi en þar af voru 45 fluttir í sláturhús og 170 verða í vörslu stofnunarinnar á bænum.

Um endurtekin brot er að ræða. Þrátt fyrir dagsektir á ábúendur hafa fullnægjandi úrbætur ekki verið gerðar. 

Í tilkynningu segir að Matvælastofnun hafi haft afskipti af býlinu undanfarin misseri vegna ófullnægjandi aðbúnaðar og umhirðu nautgripanna. Þeim hafi ekki verið tryggður fullnægjandi aðgangur að drykkjarhæfu vatni og fóðri spillt með ágangi og óhreinindum í fóðurgangi. 

Þá hafi þéttleiki í smákálfastíum verið of mikill og laus naut haldin utan um bundnar kýr. Eigin eftirliti hafi verið ábótavant og meðal annars hafi slösuðum gripum ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti eða leitað lækninga. Í tilkynningunni segir að aflífa hafi þurft gripi af þessum sökum.

Nýjast