Bókunarkerfið fyrir næsta sumar frosið

Halla Ingólfsdóttir eigandi Artcic Trip í Grímsey segir fáránlegt að útboð á rekstri ferju hafi neik…
Halla Ingólfsdóttir eigandi Artcic Trip í Grímsey segir fáránlegt að útboð á rekstri ferju hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í eynni. Ekki er hægt að bóka ferðir með Sæfara fyrir næsta sumar, en erlendir ferðamenn sem ætla sér að heimsækja Grímsey í Íslandsferð sinni eru margir að skipuleggja og bóka ferðir um þessar mundir.

„Þetta kemur niður á ferðaþjónustunni í Grímsey næsta sumar,“ segir Halla Ingólfsdóttir eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Artcic Trip í Grímsey. Ekki er hægt að bóka ferðir í ferjuna Sæfara sem siglir milli Dalvíkur og Grímseyjar fyrir næsta sumar. Ástæðan er að Vegagerðin býður um áramót út rekstur ferjunnar. Samskip hefur undanfarin ár haft reksturinn með höndum. „Það er fáránlegt að útboð hjá Vegagerðinni bitni á atvinnugrein sem við höfum verið að byggja upp undanfarin ár. Það er engin skynsemi í því.“

Halla segir að erlendir ferðamenn séu einmitt núna að huga að ferðum næsta sumar og bóka ferðir. Stór hluti þeirra sem ætli sér að annað borð til Grímseyjar skipuleggi Íslandsferð sína með tilliti til þess hvenær þeir komist til og frá eyjunni.

„Við erum að rekast á það núna að þeir geta ekki bókað sig með ferjunni, því á þessari stundu er ekki vitað hver muni sjá um rekstur hennar. Útboð verður auglýst um áramót eftir því sem við heyrum en Samskip verður með siglingar milli lands og eyjar út apríl. Bókunarkerfið er frosið eftir þann tíma og enginn hefur tök á að bóka ferðir með ferjunni,“ segir Halla, en síðasti opni bókunardagurinn núna er um miðjan janúar næstkomandi.

Ófremdarástand

„Þetta er algjört ófremdarástand og alveg út í hött að útboð á rekstri ferjunnar hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í Grímsey,“ segir Halla.

Hún segir Grímsey vinsælan áfangastað ferðalanga og margir hafi lagt leið sína út í eyju á liðnu sumri. „Það er enn þó nokkuð að gera, ferðamenn eru enn á ferðinni og þessi vika er góð í gistingu svo við erum ánægð, ,“ segir hún.

Skemmtiferðaskipum með viðkomu í Grímsey hefur fjölgað og segir Halla að sama skapi hafi orðið aukning í ýmis konar þjónustu við þau. Meðal annars beðið um sérsniðnar ferðir með leiðsögn. Farþegarnir komi við í Galleríi Sól og versli minjagripi og þá hafi lestin sem tekin var í notkun í eynni í sumar vakið verðskuldaða athygli.

Skortur á húsnæði er flöskuhál

„Það er ágætur möguleiki á að efla ferðaþjónustu í Grímsey yfir sumarið, vinsældirnar eru slíkar, en það eru ýmsir flöskuhálsar sem standa í vegi fyrir því,“ segir Halla. Einn er skortur á húsnæði, ekki sé hægt að fá nægt starfsfólk því húsnæði er ekki í boði fyrir það. Þannig hafi hún ætlað sér að fá þrjá starfsmenn til liðs við sitt fyrirtæki en ekki komið nema einum fyrir í gistingu. „Það er afskaplega lítið framboð á húsnæði hér yfir sumarmánuðina og erfitt að finna lausn, það er ekkert húsnæði í boði til leigu hér í eynni.“

Boðið út á þriggja til fimm ára fresti

G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi hjá Vegagerðinni segir að nýtt útboð sé í smíðum, en núverandi samningur gildir til 1.apríl 2023. Lögum samkvæmt þarf að bjóða rekstur ferjunnar út með ákveðnu millibili, venjan sé þrjú til fimm ár. Hann segir Vegagerðina munu athuga hversu mikilvægt þetta sé og skoða hvort hægt sé að gera ráðstafanir, en á þessu stigi sé ekki hægt að fullyrða neitt. „Markmiðið er að í framtíðinni verði þetta opnara.“

 


Athugasemdir

Nýjast