Hjúkrunarsagan er yfirgripsmikil en að ritun hennar hefur verið unnið í hartnær áratug. Í bókinni er lýst miklum breytingum á störfum hjúkrunarfræðinga, menntun þeirra, kjörum, réttindum, starfsaðstæðum og félagsstörfum. Margrét kallar marga til sögunnar, jafnt þekkta forystumenn stéttarinnar sem óbreyttar hjúkrunarkonur er unnu störf sín af þolinmæði hversdagshetjunnar. Sumar þeirra urðu goðsagnir innan stéttarinnar. Margrét hefur í rannsóknum sínum á sögu hjúkrunar víða leitað fanga og verið fundvís á heimildir sem hafa legið ókannaðar. Hún leggur sérstaklega áherslu á fyrri hluta sögutímabilsins sem fram til þessa hefur lítt verið kannaður. Saga jafn fjölmennrar kvennastéttar og hjúkrunarstéttin er samtvinnast sögu og réttindabaráttu kvenna á Íslandi á tuttugustu öld. Þetta kemur glöggt fram í texta Margrétar en hún spinnur frumlegan þráð úr fjölbreyttum heimildum. Úr verður saga sem rennur ljúft, er áhugaverð, lifandi og skemmtileg.
Ritnefnd skipuðu; Ásta Möller formaður, Vilborg Ingólfsdóttir, Sigþrúður Ingimundardóttir, Herdís Sveinsdóttir, Þorgerður Ragnarsdóttir og Kristín Björnsdóttir. Með nefndinni starfaði Aðalbjörg Finnbogadóttir um nokkurt skeið, svo og Elsa Friðfinnsdóttir, núverandi formaður félagsins.