Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Með frelsi í faxins hvin – riðið í strauminn með Hermanni Árnasyni, sem Hjalti Jón Sveinsson hefur skráð.
Allt hestafólk, hvar svo sem á landinu það býr, kannast við hestafrömuðinn Hermann Árnason á Hvolsvelli. Hann hefur stundað hestamennsku frá blautu barnsbeini og hafa tamning hrossa og meðferð þeirra, auk hestaferða, verið hugsjón hans alla tíð. Sum verkefni hans hafa verið hans eru með ólíkindum, eins og Vatnareiðin 2009 þegar hann reið, ásamt félögum sínum, yfir allar ár sem á vegi þeirra urðu frá Höfn í Hornafirði og vestur fyrir Hvítá í Árnessýslu. Að sjálfsögðu er sagt frá því ferðalagi í bókinni og einnig er fjallað Stjörnureiðina svokölluðu sem Hermann skipti í tvo 40 daga leiðangra, árin 2016 og 2018, og reið þá þvers og kruss yfir landið, á þann hátt að ferðirnar mynduðu orðið stjörnu þegar hann fór af hestbaki í lokin hennar. Þá segir frá Flosareiðinni 2016 þegar Hermann og tveir félagar hans riðu í spor Flosa í því skyni að sannreyna frásögn Njálssögu. Hér á eftir verður gripið niður í þá frásögn
Flosareiðin 2016
Á Njáluslóð
Ég hafði löngum haft áhuga á Njáls sögu og hafði meðal annars hlustað á hana af hljóðbók, sem vakti enn frekar athygli mína á för svokallaðra brennumanna frá Svínafelli í Öræfum er þeir hugðust ríða til Bergþórshvols og brenna þar inni Njálssyni og fylgismenn þeirra.
Í samræðum mínum við hestamenn þarna á svæðinu í gegnum tíðina hafði ég heyrt efasemdaraddir um að gerlegt væri að ríða þessa leið eins og Flosi hafði gert. Ég skoðaði þetta frá ýmsum sjónarhornum og þóttist hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta ætti að vera framkvæmanlegt og því væri gaman að reyna það við gott tækifæri. Þá væri um leið fróðlegt að kanna hvort lýsing leiðarinnar í Njálu væri rétt.
Þegar Flosi lagði á ráðin með mönnum sínum skýrði hann út fyrir þeim hvernig hann hygðist ríða leiðina, hvenær og á hve löngum tíma.
Flosi mælti: „Það er líkast að eg játist undir þetta sem bæn yður stendur til. Mun eg nú og ákveða hverja aðferð vér skulum hafa. Og er það mitt ráð að hver maður ríði heim af þingi og sjái um bú sitt í sumar meðan töður manna eru undir. Eg mun og heim ríða og vera heima í sumar. En drottinsdag, þann er átta vikur eru til vetrar, þá mun eg láta syngja mér messu heima og ríða síðan vestur yfir Lómagnúpssand. Hver vor skal hafa tvo hesta. Ekki mun eg lið auka úr því sem nú hefir til eiða gengið því að vér höfum það ærið margt ef oss kemur það vel að haldi. Eg mun ríða drottinsdaginn og svo nóttina með. En annan dag vikunnar mun eg kominn á Þríhyrningshálsa fyrir miðjan aftan. Skuluð þér þá þar allir komnir er eiðsvarar eruð við þetta mál. En ef nokkur er sá þá eigi þar kominn er í mál þessi hefir gengið þá skal engu fyrir týna nema lífinu ef vér megum ráða.“
Ketill mælti: „Hversu má það saman fara að þú ríðir drottinsdag heiman en komir annan dag vikunnar á Þríhyrningshálsa?“
Flosi mælti: „Eg mun ríða upp úr Skaftártungu og fyrir norðan Eyjafjallajökul og ofan í Goðaland og mun þetta endast ef eg ríð hvatlega. Mun eg nú og segja yður alla mína fyrirætlan að þá er vér komum þar saman skulum vér ríða til Bergþórshvols með öllu liðinu og sækja Njálssonu með eldi og járni og ganga eigi fyrr frá en þeir eru allir dauðir. Skuluð þér þessi ráðagerð leyna því að líf vort allra liggur við. Munum vér nú láta taka hesta vora og ríða heim.“(Brennu-Njáls saga, kafli 124.)
Flosi bjó sig austan þá er tveir mánuðir voru til vetrar og stefndi til sín öllum sínum mönnum þeim er honum höfðu liði og ferð heitið. Hver þeirra hafði tvo hesta og góð vopn. Þeir komu allir til Svínafells og voru þar um nóttina. Flosi lét snemma veita sér tíðir drottinsdaginn(1) en síðan gekk hann til borðs. Hann sagði fyrir öllum heimamönnum sínum hvað hvergi skyldi starfa meðan hann væri í brautu. Síðan gekk hann til hesta sinna.
Þeir Flosi riðu vestur á sand(2). Flosi bað þá fyrst ekki allákaft ríða og kvað þó hinn veg lúka mundu. Hann bað alla bíða ef nokkur þyrfti að dveljast. Þeir riðu vestur til Skógahverfis(3) og komu í Kirkjubæ(4). Flosi bað alla menn koma til kirkju og biðjast fyrir. Menn gerðu svo.
Síðan stigu þeir á hesta sína og riðu upp á fjall og svo til Fiskivatna og riðu nokkuru fyrir vestan vötnin og stefndu svo vestur á sandinn. Létu þeir þá Eyjafjallajökul á vinstri hönd sér og svo ofan í Goðaland og svo til Markarfljóts og komu um nónskeið(5) annan dag vikunnar(6) á Þríhyrningshálsa og biðu til miðs aftans(7).“(Brennu-Njáls saga,126. kafli, Brennu-Njáls saga, tekið af Netinu 20,02. 2025)

Þrír knapar með 11 hesta
Þeir Hákon Pétursson og Friðbjörn Garðarsson slógust í för með mér. Hákon er þaulvanur hestamaður og Friðbjörn mikill áhugamaður um Njáls sögu sem hann hefur lesið margsinnis. Þeir höfðu auk þess verið með mér í nokkrum hestaferðum.
Við lögðum upp í Flosareiðina með 11 hesta.
Samkvæmt frásögn Njálu var lagt til að hver maður væri með tvo hesta. Knaparnir á þeirri tíð hafa líklega verið léttari en við og sumir telja að hestarnir hafi verið stærri, áður en harðindin gengu í garð á Íslandi. Einnig má gera ráð fyrir að hestar hafi verið í talsverðri þjálfun og margir í sífelldri brúkun. Við vorum með tæplega fjóra hesta á mann, sem allir voru vel þjálfaðir og undir slíka ferð búnir og það að riðið yrði „hvatlega“ eins og Flosi hafði lagt til ef ráðagerðin ætti að takast.
Við riðum af stað snemma á drottinsdegi eins og segir í Njálu. Við riðum vestur Lómagnúpssandinn eins og hann hét á söguöld en heitir nú Skeiðarársandur. Ég hafði ákveðið að áfangaskipta ferðinni og hugsaði mér að 30 kílómetra áfangar væru hæfilegir og haldið yrði vel áfram og ekki stoppað mikið nema til þess að skipta um hesta.
Fyrsta alvöruáningin yrði úti við Lómagnúp og sú næsta á Kirkjubæjarklaustri. Þetta gekk vel og við gengum til kirkju eins og þeir brennumenn sem létu syngja sér messu. Við fórum í Kapelluna sem reist var á sínum tíma til minningar um Skaftárelda og séra Jón Steingrímsson. Við riðum því næst út að Holti og inn Holtsdal og áfram að Skaftárdal þar sem við áðum. Eftir á að hyggja hefði verið skynsamlegra að ríða út Síðuheiðar en þar hafði ég farið fyrr um sumarið. Þá er riðið upp frá Geirlandi. Farið er inn á slóðann austan við Geirland. Leiðin vestur Síðuheiðar er auðrötuð með línuvegi og eftir gömlum slóðum smalamanna. Þetta er að mörgu leyti þægilegri leið.
Næst lá leiðin yfir gamla brú á Skaftá við Skaftárdal og niður að Ljótarstöðum og komum við þangað í myrkri um hálfellefu um kvöldið. Við ætluðum að fá að liggja úti undir garði og vorum búnir að fá hólf fyrir hestana. Skollið var á svartamyrkur, veður skýjað og komið fram í ágúst. Það var ekki annað tekið í mál en að við gengjum í bæinn til þeirra mæðgna, Heiðu Guðnýjar Ásgeirsdóttur og Helgu Bjarnadóttur. Við vorum drifnir inn í steik og svo í rúm. En svefninn var stuttur því að við vorum komnir á bak um hálffjögur um morguninn og lagðir af stað.
Þá var haldið yfir Ljótarstaðaheiðina, eftir gamalli þjóðleið sem ég hafði farið upp á Hvalningshnjúka og norður um. Þetta er snilldarleið og hefur greinilega verið fjölfarin áður fyrr, það sér maður á götunum. Leiðin liggur inn að Brytalækjum og svo vestur á Mælifellssand.
Þetta er gamla sumarleiðin en þar er maður að mestu laus við vötn og ýmis torleiði, þurftum bara að ríða yfir Hólmsá. Þessi leið er líka talsvert styttri en hin hefðbundna leið sunnan jökla.
Síðan riðum við í Hvanngil og um Hungurskarð og komum ríðandi ofan Þríhyrnings „óséðir“ á Þríhyrningshálsa. Klukkan var þá um hálfsex eða 17.30. Það hlýtur að hafa verið markmið brennumanna að forðast eins og unnt var að einhver gæti hugsanlega fylgst með ferðum þeirra.

Riðu 220 kílómetra á 36 tímum
Þetta riðum við á 36 og hálfum tíma, 220 kílómetra. Við sýndum fram á að hægt væri að ríða Flosaveg á um það bil tveimur dögum líkt og segir í Njálu þó svo að ferðinni hafi verið breytt að nokkru leyti vegna þess að það vantar nokkuð upp á staðfræðina í sögunni.
Það má ekki fullyrða of mikið en það er ekki skynsamlegt að ætla að ríða vestur Mælifellssand og þaðan ofan í Goðaland eða Þórsmörk. Hér virðist eitthvað hafa skolast til í sögunni. Ég tel að frásögnin hefði átt að vera þannig að þeir hafi haft Eyjafjallajökul og Goðaland á vinstri hönd. Ég trúi því ekki að þeir hafi kosið að ríða yfir báðar Emstruárnar og Markarfljót að auki en þar hefðu þeir verið komnir í byggð því að búskapur var í Húsadal í Þórsmörk á þeim tíma samkvæmt frásögnum. Svo segir sagan að einnig hafi verið búið í Þórólfsfelli, sem mun hafa verið í eigu Skarphéðins Njálssonar. Brennumenn hefðu því heldur ekki komist óséðir hafi þeir riðið þessa leið. Lítið er talað um vötn í Njálu en hefðu brennumenn komið við í Veiðivötnum, eins og segir í sögunni, hefði ferðin óhjákvæmilega tekið lengri tíma því að þau eru svo úr leið.