Bók um sjávarpássið Dalvík komin út

Atli Rúnar Halldórsson afhendir Jóhanni Antonssyni fyrstu bókina fyrir hönd útgefenda. Mynd: Svanfrí…
Atli Rúnar Halldórsson afhendir Jóhanni Antonssyni fyrstu bókina fyrir hönd útgefenda. Mynd: Svanfríður Jónasdóttir.

Sjávarplássið Dalvík er heiti á nýrri bók sem Jóhann Antonsson, viðskiptafræðingur, hefur skrifað um sjávarútvegssögu Dalvíkur.

Jóhann Antonsson þekkir vel til sjávarútvegs á Dalvík þar sem hann er fæddur og uppalinn, en hann tók virkan þátt í atvinnugreininni á Dalvík um árabil. Hann hefur verið stjórnandi í sjávarútvegi og sinnti lengi ráðgjafarstörfum í sjávarútvegi fyrir fyrirtæki og opinberar stofnanir.

Jóhann var einn þriggja stofnenda héraðsfréttablaðsins Norðurslóðar í Dalvíkurbyggð, sem hefur komið óslitið út síðan eða í meira en fjörutíu ár. Í Norðurslóð hefur Jóhann skrifað ótal greinar um sögu sjávarútvegsins í sinni heimabyggð. Þær greinar hefur hann nú endurunnið, bætt við og breytt fyrir þessa bók og til viðbótar hefur Jóhann tekið saman efni um sjávarútveg á Dalvík í Fiskidagsblaðið, sem gefið hefur verið út í tengslum við Fiskidaginn mikla.

Allt þetta mikla efni er nú komið út í einni bók og miklu meira til. Bókin er ríkuleg heimild um þetta mikla sjávarútvegspláss sem hefur í gegnum tíðina og státar enn þann dag í dag af öflugri útgerð og fiskvinnslu. Bókina prýðir fjöldi ljósmynda sem aldrei hafa áður fyrir sjónir almennings komið. Bókin er 270 síður í stóru broti.

Útgáfufyrirtækið Svarfdælasýsl gefur bókina út en að því standa sex systkini frá Jarðbrú í Svarfaðardal. Útgáfufélagið varð til um samnefnda bók sem kom út árið 2017 en síðan hefur það gefið út nokkrar bækur, þar á meðal bók um tuttugu ára sögu Fiskidagsins mikla á Dalvík sem kom út fyrir síðustu jól.

/mþþ


Athugasemdir

Nýjast