Boðuðum niðurskurði á FSA harðlega mótmælt

Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Kvenfélagið Hlíf á Akureyri hefur sent frá ályktun þar sem mótmælt er harðlega þeim niðurskurði sem boðaður hefur verið á FSA sérstaklega lokun barnadeildar FSA  um helgar og fækkun starfsmanna. “Það samræmist ekki kröfum nútímans að leggja lítil börn inn á legudeild með fullorðnum. Ekki er hægt að ætlast til þess að veik börn séu sett á deildir með fullorðnum um helgar. Þær aðstæður eru ekki  boðlegar hvorki fullorðnum né börnum. Því fylgir mikið rót og flutningar. Börn veikjast um helgar eins og aðra daga. Allan ársins hring!”

“Kvenfélagið Hlíf hefur í hartnær 40 ár einbeitt sér að því að hlúa að barnadeildinni og safnað fé til tækjakaupa fyrir deildina. Því er það okkur sárt að horfa upp á þennan niðurskurð og skerðingu á þjónustu við börnin sem til deildarinnar leita. Það er skylda ríkisstjórnar landsins að sjá landsmönnum fyrir góðu heilbrigðiskerfi og það er ekki hægt með endalausum niðurskurði sem bitnar m.a. á saklausum veikburða börnum. Þá mun þessi niðurskurður leiða til þess að starfsfólk með sérþekkingu gefst upp og leitar í önnur störf eða jafnvel til annarra landa. Þessi  botnlausi niðurskurður á heilbrigðisstofnunum leiðir á endanum til þess að hættuástand getur skapast og mannslíf geta tapast. Því krefjumst við þess að ríkisstjórn Íslands endurskoði tafarlaust fjárveitingar heilbrigðisstofnana og þess málaflokks en dragi frekar saman í öðrum. T.d. mætti fækka stöðugildum í sendiráðum landsins víðs vegar um heim og draga úr kostnaði við ferðalög ráðherra,” segir ennfremur í ályktuninni.

 

Nýjast