Boðið upp á áætlunarflug til Kaupmannahafnar í sumar

Akureyrarflugvöllur. Mynd: Hörður Geirsson.
Akureyrarflugvöllur. Mynd: Hörður Geirsson.

Iceland Express býður í sumar upp á fast áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Félagið hafði áður tilkynnt að ekki yrði af fluginu en hefur nú skipt um skoðun vegna þrýstings frá heimamönnum. Síðastliðin sex sumur hefur Iceland Express boðið upp á fast áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar en í lok síðasta árs tilkynnti félagið að því yrði hætt. Nú hefur flugfélagið hinsvegar ákveðið að hætta við fyrri ákvörðun sína og fljúga vikulega til Kaupmannahafnar frá Akureyri allan júlí og fram í miðjan ágúst. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, segir þar að mikill þrýstingur hafi verið frá heimamönnum að halda fluginu enda vinsælt að geta flogið beint frá Akureyri til Kaupmannahafnar. „Þannig að við einfaldlega létum undan þeim mikla þrýstingi sem við urðum fyrir," segir Heimir. Tímabilið sem flogið verður á milli Kaupmannahafnar og Akureyrar er styttra en undanfarin sumur en á móti kemur að flugfélagið mun enda sumarið á því að fljúga nokkrum sinnum beint til Kaupmannahafnar frá Egilsstöðum. Heimir segir að eftir að fluginu ljúki frá Akureyri muni félagið fljúga frá miðjum ágúst, kannski eitthvað inn í september, nokkrar beinar flugferðir frá Egilsstöðum til Kaupmannahafnar.

Nýjast