Boðið til fyrirlestrar á Húsavík um Fjölbreyttar fornsögur

Þekkingarnet Þingeyinga býður upp á forvitnilegan fyrirlestur n.k. mánudagskvöld 19. desember kl. 20.30 á veitingastaðnum Hvalbak á Húsavík. Þar mun nýbakaður doktor í íslenskum bókmenntum, Húsvíkingurinn Þórdís Edda Jóhannesdóttir, flytja erindi sem hún nefnir „Fjölbreyttar fornsögur.“ Í kynningu á fyrirlestrinum segir m.a:
„Í almennri umræðu um íslenskar fornsögur beinist kastljósið oftast að stórum og frægum sögum eins til dæmis Njálu, Egils sögu eða Heimskringlu. Um lok 12. aldar hefst blómaskeið í sagnaritun á Íslandi sem stendur fram á 14. og 15. öld og eru varðveittar bókmenntir frá þessum tíma fjölskrúðugari en í flestum nágrannalöndum. Í erindinu verður sjónum sérstaklega beint að sögum sem hafa notið lítillar athygli almennings, en Þórdís Edda hefur nýlokið doktorsrannsókn á Jómsvíkingasögu sem telja má til slíkra sagna. Fjallað verður um sögur sem eru á einhvern hátt sérkennilegar en um leið skemmtilegar og varpa ljósi á margbrotinn bókmenntaheim íslenskra miðalda.“
Aðgangur á á fyrirlesturinn er ókeypis. – epe