Boðað verkfall leikskólakennara hefði áhrif á 700 heimili

Um 700 heimili á Akureyri gætu lent í vandræðum í næstu viku ef af boðuðu verkfalli leikskólakennara verður. Verkfallið á að hefjast mánudaginn 22. ágúst, ef ekki hafa nást samningar í kjaradeilu leikskólakennara og Sambands íslenskra sveitafélaga fyrir þann tíma. Alls eru 15 leikskólar í Akureyrarbæ, þar af tveir einkareknir, og fjöldi leikskólabarna um 900.  

Hrafnhildur Sigurðardóttir, leikskólafulltrúi, segir að ellefu leikskólum verði lokað. Hins vegar verða þrír af þessum ellefum leikskólum með smávegis opnun ef af verkfalli verður, Holtakot, Sunnuból og Pálmholt. Þetta kemur til vegna þess að aðstoðarskólastjórar umræddra skóla eru deildarstjórar sem ekki eru í verkfalli og því hægt að taka á móti einhverjum fjölda barna. Einkareknu skólarnir tveir verða áfram opnir en það eru Hólmasól og Hlíðarból. Þá mun leikskólinn í Grímsey verða opinn. Hrafnhildur segir enga viðbragðsáætlun vera hjá Akureyrarbæ ef af verkfalli verður. „Við getum ekkert gert annað en vinna eftir þeim vinnureglum sem okkur ber að vinna eftir," segir hún. Hrafnhildur segir að komi til verkfalls hafi það einnig áhrif á frístund í 5 af 7 grunnskólum, þar sem boðið er upp á frístundaþjónustu.

Sigríður Ósk Jónasdóttir leikskólastjóri á Flúðum, þar sem 81 barn er í skólavist, segist hún eingöngu finna meðbyr frá foreldrum. „Margir hafa auðvitað áhyggjur af því hvað þeir eiga að gera við börnin sín en þeir styðja mikið við bakið okkur. Við finnum ekki annað," segir Sigríður.

Nýjast