Verkið sem LA frumsýnir, heitir Falið fylgi og er skrifað af Bjarna Jónssyni leikskáldi sérstaklega fyrir Leikfélag Akureyrar og fara
sýningarnar fram í Rýminu. Þarna er á ferðinni spennandi verk úr íslenskum samtíma.
Á morgun föstudag klukkan 17-19 opnar annar tveggja
bæjarlistamanna Akureyrarbæjar, Anna Gunnarsdóttir, sýninguna Sjávarföll í DaLí Gallery .
Verkin hennar Önnu eru unnin út frá gamalli tækni sem notuð var við körfugerð hjá frumbyggjum Ameríku og einnig í Malasíu.
Kraftur verkanna líkir eftir þeirri orku er myndast hringinn í kringum landið við sjávarföll.
Í Listasafninu á Akureyri er á laugardaginn kl. 15.00 opnun sýningar sem margir hafa beðið eftir en þar sýnir leirlistakonan Margrét
Jónsdóttir. Hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum bæði heima og erlendis og haldið nokkrar einkasýningar.
Hvítir Skuggar/White shadows er stærsta einkasýning hennar fram til þessa.
Á laugardaginn er opnun á nýju verki á VeggVerki en þá er komið að nemendum við Myndlistaskólann á Akureyri að spreyta sig
á VeggVerki sem stendur við ein af fjölförnustu vegamótum bæjarins. Listmálarinn Kristinn. G. Jóhannsson opnar á laugardaginn klukkan 15
í Jónas Viðar Gallery sýningu á nýjum verkum - sýningin ber yfirskriftina "Haustbrekkur" og er hluti myndaraðar sem Kristinn hefur unnið að
síðustu ár.
Á sunnudaginn klukkan 11-13 opnar í Kunstraum Wohnraum sýning Hönnu Hlífar Bjarnadóttur "Heima er best". Í texta Hönnu Hlífar um
verkið segir: Ísland var í efsta sæti ásamt Noregi árið 2007 í lífskjaravísitölu Þróunarstofnunar
Sameinuðu þjóðanna en stofnunin birtir árlega lista þar sem lagt er mat á lífsgæði í 177 ríkjum, svo sem ævilíkur,
menntunarstig og verga landsframleiðslu á mann. Sama ár voru 8410 tilkynningar um vanrækslu á börnun til barnaverndunarstofu.
Á Café Karólínu stendur yfir sýning Herdísar Bjarkar Þórðardóttur - "Rok". Þar eru sýnd fimm ný
olíumálverk.