Blómleg menning á Akureyri um helgina

Menningin verður  blómleg og fjölbreytt á Akureyri um helgina.  Á morgun verður frumsýnt nýtt íslenskt verk hjá Leikfélagi Akureyri og þá verða opnaðar fjölmargar myndlistarsýningar vítt og breitt um bæinn.

Verkið sem LA frumsýnir, heitir Falið fylgi og er skrifað af Bjarna Jónssyni leikskáldi sérstaklega fyrir Leikfélag Akureyrar og fara sýningarnar fram í Rýminu.  Þarna er á ferðinni spennandi verk úr íslenskum samtíma.  
Á morgun föstudag klukkan 17-19  opnar annar tveggja bæjarlistamanna Akureyrarbæjar, Anna Gunnarsdóttir, sýninguna Sjávarföll í DaLí Gallery .
Verkin hennar Önnu eru unnin út frá gamalli tækni sem notuð var við körfugerð hjá frumbyggjum Ameríku og einnig í Malasíu.  Kraftur verkanna líkir eftir þeirri orku er myndast hringinn í kringum landið við sjávarföll.  
Í Listasafninu á Akureyri er á laugardaginn kl. 15.00 opnun sýningar sem margir hafa beðið eftir en þar sýnir leirlistakonan Margrét Jónsdóttir.  Hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum bæði heima og erlendis og haldið nokkrar einkasýningar. Hvítir Skuggar/White shadows er stærsta einkasýning hennar fram til þessa.  
Á laugardaginn er opnun á nýju verki á VeggVerki en þá er komið að nemendum við Myndlistaskólann á Akureyri að spreyta sig á VeggVerki sem stendur við ein af fjölförnustu vegamótum bæjarins.  Listmálarinn Kristinn. G. Jóhannsson opnar á laugardaginn klukkan 15 í Jónas Viðar Gallery sýningu á nýjum verkum - sýningin ber yfirskriftina "Haustbrekkur" og er hluti myndaraðar sem Kristinn hefur unnið að síðustu ár.  
Á sunnudaginn klukkan 11-13 opnar í Kunstraum Wohnraum sýning Hönnu Hlífar Bjarnadóttur "Heima er best".   Í texta Hönnu Hlífar um verkið segir:  Ísland var í efsta sæti ásamt Noregi árið 2007 í lífskjaravísitölu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna en stofnunin birtir árlega lista þar sem lagt er mat á lífsgæði í 177 ríkjum, svo sem ævilíkur, menntunarstig og verga landsframleiðslu á mann.  Sama ár voru 8410 tilkynningar um vanrækslu á börnun til barnaverndunarstofu.
Á Café Karólínu stendur yfir sýning Herdísar Bjarkar Þórðardóttur - "Rok". Þar eru sýnd fimm ný olíumálverk.

Nýjast