Blikur á lofti vegna stórframkvæmda á Norðurlandi

Vaðlaheiðargöng verða ekki boðin út um mánaðamótin nóvember-desember nk. eins og upprunalegar áætlanir gerðu ráð fyrir, vegna tafa við útboðsvinnu og breyttrar stöðu í efnahagsmálum. Kristján L. Möller samgönguráðherra, telur að framkvæmdinni muni seinka vegna þessa um óákveðin tíma.  

Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að framkvæmdir við Vaðlaheiðagöng hæfust á fyrri hluta næsta árs og göngin yrðu tekin í gagnið árið 2012. Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, segir niðurstöðuna skiljanlega, en vonbrigði um leið.  Þetta kemur fram á vef RÚV.

Þá kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að allir bankarnir þrír sem hugðust lána til álversframkvæmda í Helguvík séu komnir í þrot og ríki óvissa um fjármögnun verkefnisins. Undirbúningur álvers á Bakka við Húsavík sé sömuleiðis í óvissu vegna fjármálakreppunnar. Forstjórar Landsvirkjunar og Alcoa á Íslandi, þeir Friðrik Sophusson og Tómas Már Sigurðsson, ræddu framhald verkefnisins í dag en þeir þurfa fyrir mánaðamót að ganga frá viljayfirlýsingu sem mótar næstu skref. Í viðtali við Stöð 2 vildi Tómas Már ekki svara því hvort dregið verði úr kraftinum á verkefninu við Húsavík en segir að blikur séu á lofti. Þótt álverð hafi lækkað verulega frá því það var hæst fyrr á árinu er það þó enn 36 prósentum hærra en það var daginn sem Alcoa ákvað að reisa álverið á Reyðarfirði árið 2003. Álfyrirtæki um allan heim eru hins vegar að fresta framkvæmdum.

Nýjast