Blíða, blíða, blíða.
Veður verður áfram hlýtt og vindur lítill á landinu næstu daga, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Í hugleiðingu veðurfræðings segir að nú sitji hæð yfir landinu og loftþrýstingur með því hæsta sem mælst hefur í júní.
Vindur í dag verður með allra hægasta móti. Inn til landsins verður sólríkt og hlýtt, hiti kringum 20 stigin þegar best lætur. Sjór kringum landið er enn svalur í byrjun sumars og í hlýju lofti eins og nú umlykur landið myndast gjarnan þoka yfir sjónum. Því er möguleiki á þokulofti í strandbyggðum allt í kringum landið. Töluvert svalara verður í veðri þar sem þoku leggur inn.
Áfram verður rólegt veður um helgina, úrkoma lítil eða engin og sólin mun eitthvað ná að skína, mest inn til landsins. Eftir helgi er útlit fyrir austan golu eða kalda, úrkomulítið veður og hitatölur með ágætum.