Bleika kvöldið í Hofi

Fjölmargir listamenn stíga á svið á konukvöldinu í Hofi á morgun. Mynd: Hörður Geirsson.
Fjölmargir listamenn stíga á svið á konukvöldinu í Hofi á morgun. Mynd: Hörður Geirsson.

Menningarhúsið Hof í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands býður til konukvölds í Hofi á morgun miðvikudaginn 26. október kl. 19.30-21.30. Tilgangurinn með Bleika kvöldinu er þríþættur; að eiga góða og skemmtilega kvöldstund, hvetja til árvekni gegn krabbameini hjá konum og að styrkja átak Krabbameinsfélagsins, Bleiku slaufuna.

Kynnar kvöldsins verða Þórhildur Ólafsdóttir og Sveinn H. Guðmarsson. Meðal listamanna sem fram koma eru Lay Low, Kristjana Arngrímsdóttir, Alt saman, Eyþór Ingi Jónsson, Kammerkórinn Ísold, Hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Ívar Helgason, Hvanndalsbræður, Eyrún Unnarsdóttir, Lára Sóley Jóhannsdóttir, Óskar Pétursson, dansarar frá Point dansstúdíói og Hundur í óskilum. Dóróthea Jónsdóttir segir frá reynslu sinni af baráttu við brjóstakrabbamein og félagar frá Krabbameinsfélagi Akureyrar verða á staðnum og kynna starfsemi sína.

Miðaverð er kr 1.200 rennur það óskipt til Bleiku slaufunnar. Aðgöngumiði gildir einnig sem happdrættismiði og endar kvöldið á að dregnir verða út vinningar og síðan haldið uppboð á hönnunarvörum sem hönnuðir á borð við OddDesign, Hrím hönnunarhús, Helena, Rassar í sveit og Óskabönd hafa gefið til styrktar átakinu. Vífilfell og 1862 Nordic Bistro bjóða upp á léttar veitingar. Mörg fyrirtæki hafa lagt verkefninu lið og má þar nefna Flugfélag Íslands, Icelandair Hotels, Ásprent, N4, Vikudag og Átak/Aqua Spa.

Nýjast