Það er mat nemenda að þær ástæður sem gefnar voru fyrir ákvörðunni, þ.e að of fáir hafi skráð sig til náms í greininni, hafi verið litaðar af forsendum sem skólayfirvöld höfðu þegar gefið sér s.l. vor. Nemendur telja að námið hafi verið illa auglýst þar sem tölvunarfræði var ekki talin upp í námsframboði skólans í auglýsingum sem birtust í fjölmiðlum sl. vor.
Á fundinum kom fram að þeir nemar sem þó hefðu skráð sig í námið í vetur fengu mjög seint að vita af því að ekki yrði boðið upp á tölvunarfræði að þessu sinni. Að auki þótti fundarmönnum miður að hafa ekkert heyrt af áformum Háskólans fyrr en lesa mátti um það í fjölmiðlum. Eins finnst okkur að skólayfirvöld ættu að sjá sóma sinn í því að funda með núverandi nemendum til að skýra stöðuna sem komin er upp. Þeir hafa áhyggjur af framtíð námsins og hvaða áhrif þessi uppstokkun muni hafa á gæði náms og kennslu.
Fundurinn skorar á Háskólaráð að blása frekar til sóknar á sviði tölvunarfræði og auka gæði og úrval kennslu í faginu, t.d. með því að bjóða bæði upp á staðar- og fjarnám. Vinna að aukinni samvinnu við fyrirtæki í upplýsinga- og tæknigeiranum auk þess sem skoðaðar verði leiðir til að bjóða upp á framhaldsnám á þessu sviði líkt og gert er með ýmis önnur svið innan skólans.