Bláfjall ehf. styrkir Heiltón til hljóðfærakaupa

S.l. mánudagskvöld veitti Bláfjall ehf. Heiltóni - hollvinasamtökum tónlistarskóla Húsavíkur, styrk upp á kr. 300.000. Afhendingin fór fram fyrir framan Borgarhólsskóla þar sem Tónlistarskólinn er til húsa. Eigendur, eða öllu heldur fyrrum eigendur Bláfjalls, því fyrirtækið hefur verið selt, þau Garðar Héðinsson og Jóhanna Kristjánsdóttir, hvöttu önnur fyrirtæki að feta í þeirra fótspor og styrkja Heiltón. Að sögn stjórnarkvenna í Heiltóni, sem þökkuðu þetta glæsilega framlag til tónlistaruppeldis á Húsavík, mun styrkurinn renna til hljóðfærakaupa, en fyrirhugað er að fara í endurnýjun á hljóðfærum fyrir Tónlistarskóla Húsavíkur á haustdögum.
Bláfjall ehf. hefur einkum verið sýnilegt Þingeyingum og grönnum þeirra á hátíðisdögum á borð við Sjómanndag, 17, júní og á Mærudögum, en starfsemin hefur snúist um útleigu á svokölluðum hoppiköstulum og öðrum uppblásnum leiktækjum.
Þegar Heiltónn var stofnaður um árið voru þrír þungavigtarmenn í tónlistarlífi Húsavíkur gerðir að heiðursfélögum, þeir Sigurður Hallmarsson, Reynir Jónasson og Benedikt Helgason. Fjórði heiðursfélaginn hefur nú bæst í hópinn, söngkennarinn, stjórnandinn og söngkonan Hólmfríður Benediktsdóttir og er vel að þeim heiðri komin eins og allir vita.
Þeir sem vilja styrkja Heiltón, og þar með hið góða starf sem unnið er í Tónlistarskóla Húsavíkur, er bent á reikningsnúmer félagsins :0567-14-400560 kt.580509-1420. JS