Björninn sótti þrjú stig norður

Björninn styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar á Íslandsmóti karla í íshokkí  með 6-2 sigri gegn SA Jötnum í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Björninn komst í 2-0 en norðanmenn jöfnuðu metin í 2-2 fyrir lok fyrsta leikhluta. Lengra komust Jötnar ekki og Bjarnarmenn skoruðu fjögur síðustu mörkin og innbyrtu þrjú mikilvæg stig í toppbaráttunni. Stefán Hrafnsson skoraði bæði mörk Jötna í leiknum en fyrir Björninn skoruðu þeir Steindór Ingvarsson, Brynjar Bergmann, Richard Tahtinen, Ólafur Björnsson, Sturla Snorrason og Birkir Árnason.

Með sigrinum fara Bjarnarmenn upp í 28 stig á toppi deildarinnar eftir tólf leiki. Björninn hefur hins vegar leikið þremur leikjum meira en SA Víkingar sem hafa 21 stig í öðru sæti og fjórum leikjum meira en SR sem hefur 19 stig í þriðja sæti. Í tveimur neðstu sætunum hafa Jötnar sjö stig en Húnar þrjú stig.

Nýjast