Björninn lagði Íslandsmeistarana að velli
SA Víkingar hófu titilvörnina á Íslandsmóti karla í íshokkí með tapi gegn Birninum í kvöld, 3:4, en leikið var
í Skautahöllinni á Akureyri. Björninn komst í 2:0 með mörkum frá Matthíasi Sigurðssyni og Steindóri Ingasyni og þannig var
staðan eftir fyrstu lotu. SA jafnaði metin í annarri lotu með mörkum frá Orra Blöndal og Andra Frey Sverrissyni.
Björninn komst yfir á nýjan leik undir lok lotunnar með marki frá Fali Birki Guðnasyni og Björninn leiddi 3:2 fyrir þriðju og síðustu lotu. Andri Már Mikaelsson jafnaði metin enn á nýt fyrir SA en það var Björninn sem átti lokaorðið er Ólafur Hrafn Björnsson skoraði sigurmarkið skömmu fyrir leikslok.
Fín byrjun á mótinu hjá Birninum sem teflir nú fram tveimur liðum. Það er ljóst að róðurinn gæti orðið þungur fyrir SA í vetur sem hefur þurft að horfa á eftir sterkum leikmönnum frá félaginu.