Bjórinn beint í vínbúðirnar frá Vífilfelli á Akureyri

Vífilfell er nú byrjað að afgreiða bjór, sem framleiddur er á Akureyri, beint í vínbúðir ÁTVR á Siglufirði, Sauðárkróki og Egilsstöðum en áður var bjórinn keyrður frá Akureyri til Reykjavíkur og svo aftur norður og austur á þessa staði, með tilheyrandi flutningskostnaði. Unnsteinn Jónsson verksmiðjustjóri Vífilfells á Akureyri segir að hér sé um lítið skref að ræða en þó skref í rétta átt.  

Innan fárra vikna er svo reiknað með að hægt verði að afgreiða bjór beint frá Akureyri til vínbúða ÁTVR á Blönduósi, Hvammstanga, Seyðisfirði, Neskaupstað, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Þórshöfn og Vopnafirði. Í dag er bjórinn sem framleiddur er á Akureyri, fyrst keyrður suður og svo aftur norður og austur á þessa staði. Bjórinn í vínbúðirnar á Akureyri, Dalvík og Húsavík hefur verið afgreiddur beint frá verksmiðjunni á Akureyri í nokkurn tíma.

Unnsteinn segir það algjörlega nauðsynlegt að koma á flutningsjöfnuði og að hið opinbera sýni þannig með afgerandi hætti þann vilja sinn að halda öllu landinu í byggð. Hann segir að það kosti fyrirtæki eins og Vífilfell, um 70-80 milljónir króna aukalega á ári, að reka verksmiðju sína á Akureyri, vegna hins mikla flutningskostnaðar. Verði ekkert að gert sé sú hætta yfirvofandi að framleiðslufyrirtæki flytji starfsemi sína frá landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið, þar sem um 80% markaðarins er.

Nýjast