Björgvin Þorsteinsson látinn

Björgvin Þorsteinsson.
Björgvin Þorsteinsson.

Björg­vin Þor­steins­son, lögmaður og marg­fald­ur Íslands­meist­ari í golfi, lést á líkn­ar­deild Land­spít­ala aðfaranótt fimmtu­dags, 68 ára að aldri eft­ir langa bar­áttu við krabba­mein.

Björg­vin fædd­ist á Ak­ur­eyri 27. apríl 1953, son­ur hjón­anna Þor­steins Magnús­son­ar vél­stjóra og Önnu Rósamundu Jó­hanns­dótt­ur hús­freyju. Hann lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri 1973 og lög­fræðiprófi frá Há­skóla Íslands 1980. Hann fékk rétt­indi sem héraðsdóms­lögmaður árið 1982 og sem hæsta­rétt­ar­lögmaður 1986.

Björg­vin starfaði sem full­trúi sýslu­manns­ins í Aust­ur-Skafta­fells­sýslu 1980-1981 og full­trúi á lög­manns­stofu Gylfa og Svölu Thorodd­sen 1981-1983. Hann starfaði sjálf­stætt frá 1983, síðast hjá Draupni lög­mannsþjón­ustu.

Björg­vin sat í stjórn Golf­klúbbs Ak­ur­eyr­ar 1967-1969 og í stjórn Bridges­am­bands Íslands 1987- 1992, í stjórn Lög­manna­fé­lags Íslands 1985-1987 og í stjórn Golf­sam­bands Íslands 1998-2002. Þá átti hann sæti í áfrýj­un­ar­dóm­stól ÍSÍ und­an­farna tvo ára­tugi.

Björg­vin varð sex sinn­um Íslands­meist­ari í golfi á ár­un­um 1971 til 1977 en hann keppti 56 sinn­um á Íslands­mót­inu, síðast í sum­ar á Jaðarsvell­in­um á Ak­ur­eyri og var þá elsti kepp­and­inn. Þá varð hann Íslands­meist­ari í flokki kylf­inga 65 ára og eldri í Vest­manna­eyj­um í sum­ar. Auk Íslands­meist­ara­titl­anna varð hann 9 sinn­um meist­ari Golf­klúbbs Ak­ur­eyr­ar, Golf­klúbbs Reykja­vík­ur tvisvar og Golf­klúbbs Hafn­ar í Hornafirði einu sinni. Hann fór 11 sinn­um holu í höggi á ferl­in­um. Björg­vin var sæmd­ur heiður­skrossi ÍSÍ á ársþingi Íþrótta- og ólymp­íu­sam­bands Íslands nú í októ­ber.

Fyrri eig­in­kona Björg­vins var Her­dís Snæ­björns­dótt­ir, flug­freyja og full­trúi, þau skildu. Dótt­ir þeirra er Steina Rósa. Síðari eig­in­kona Björg­vins er Jóna Dóra Krist­ins­dótt­ir, hjúkr­un­ar­fræðing­ur og ljós­móðir. Stjúp­son­ur Björg­vins og son­ur Jónu Dóru er Krist­inn Geir. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

 
 

Nýjast