Björgvin og Íris skíðafólk ársins

Björgvin Björgvinsson er skíðamaður ársins.
Björgvin Björgvinsson er skíðamaður ársins.

Dalvíkingurinn Björgvin Björgvinsson og Íris Guðmundsdóttir frá Akureyri hafa verið valin skíðafólk ársins af Skíðasambandi Íslands. Bæði eiga þau hins vegar það sameiginlegt að vera hætt skíðaiðkun. Björgvin er fjórfaldur Íslandsmeistari á árinu 2011. Síðasta vor sigraði hann í svigi, stórsvigi, samhliðasvigi og alpatvíkeppni á Skíðamóti Íslands. Einnig varð Björgvin bikarmeistari Skíðasambands Íslands. Á heimslista Alþjóða skíðasambandsins er Björgvin í 73. sæti í svigi eftir að hafa komist hæst í 51. sæti. Björgvin tilkynnti það í sumar að hann leggði skíðin á hilluna og er ástæða þess mikill fjárhagslegur kostnaður afreksmanns á skíðum við að halda sér í fremstu röð. Íris hefur verið fremsta skíðakona landsins undanfarin ár. Síðastliðinn vetur náði hún sínum besta árangri á sterku alþjóðlegu svigmóti í Noregi þegar hún varð í 2. sæti og fékk 35,86 FIS stig. Hún keppti fyrir Íslands hönd á heimsmeistarmótinu á skíðum í Garmisch-Partenkirchen en féll úr leik í fyrri umferð í svigi og síðari umferð í stórsvigi eftir að hafa verið í 55. sæti eftir fyrri umferð. Í vor varð Íris Íslandsmeistari á skíðum í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni. Á heimslista Alþjóða skíðasambandsins er hún í 502. sæti í svigi og 749. sæti í stórsvigi. Þrátt fyrir góðan árangur síðastliðinn vetur og undanfarin ár þá hefur Íris lagt skíðin á hilluna. Endurtekin meiðsli og mikill kostnaður við að vera í fremstu röð sem skíðamaður vega þungt í þeirri ákvörðun.

Nýjast