Bjóða húsnæði sem hentar stúdentum

Félagsstofnun stúdenta við Háskólann á Akureyri sýnir samfélagslega ábyrgð og hækkar ekki leiguverð …
Félagsstofnun stúdenta við Háskólann á Akureyri sýnir samfélagslega ábyrgð og hækkar ekki leiguverð á næstu fjórum mánuðum.

Félagsstofnun stúdenta á Akureyri (FÉSTA) er sjálfseignarstofnun sem Háskólinn á Akureyri, skráðir stúdentar við háskólann og Akureyrarbær eiga aðild að. FÉSTA á og rekur stúdentagarða og býður upp á fjölbreytt úrval húsnæðis, allt frá einstaklingsherbergjum til þriggja herbergja íbúða. Á tímum takmarkana vegna Covid heimsfaraldursins dróst eftirspurn stúdenta eftir húsnæði á háskólasvæðinu saman þegar öll kennsla var rafræn. Eftir að öllum takmörkunum vegna faraldursins var aflétt jókst eftirspurnin þó aftur hjá stúdentnum. „Það var mjög ánægjulegt að sjá stúdentagarðana fulla á ný og mikið líf í húsunum. Eftirspurn hefur einnig breyst síðastliðin ár og hefur eftirspurn eftir minna húsnæði aukist til muna, á kostnað stærri íbúðanna. Flest óska eftir einstaklingsherbergjum og tveggja herbergja íbúðum, ásamt því að í gegnum árin hefur verið mikið um fyrirspurnir um að leigja stúdíóíbúðir, en FÉSTA hefur ekki átt slíkar íbúðir,“ segir Jóhannes Baldur Guðmundsson framkvæmdastjóri FÉSTA. Í skólabyrjun voru stúdentagarðarnir fullsetnir og eru fáir á biðlistum eins og er, það er alla jafna staðan í skólabyrjun og má búast við því að nú fari biðlistinn að lengjast.

Samfélagsleg ábyrgð að frysta vísitölu leiguverðs

Leigusamningar hjá FÉSTA eru vísitölutengdir líkt og hjá öðrum leigufélögum og hefur hækkandi verðbólga orðið til þess að leiguverð hefur hækkað meira en í venjulegu árferði. Rekstur FÉSTA hefur á þessu ári gengið betur en áætlanir gerðu ráð fyrir „og í ljósi þess skoðuðum við hvað við gætum gert til að minnka höggið á okkar leigjendur, og í framhaldinu fór ég þess á leit við stjórn FÉSTA að við myndum frysta vísitölu leiguverðs á okkar íbúðum frá byrjun september til loka árs, og var það einróma samþykkt í stjórn FÉSTA til að sýna samfélagslega ábyrgð á þessum verðbólgutímum og þannig erum við að gera okkar í baráttunni við að stoppa verðbólgubálið,“ segir Jóhannes.

Stúdentar í lotu fagna skammtímaleigu

Námsfyrirkomulag Háskólans á Akureyri er sveigjanlegt og eru námslotur haldnar reglulega yfir skólaárið. Þá mæta stúdentar til Akureyrar og fá tækifæri til að hitta kennara, stúdenta og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu ásamt því sem þar fer alla jafna eitthvað fram sem ekki er hægt að framkvæma í hefðbundnum fyrirlestri. Til að mæta minnkandi eftirspurn frá stúdentum í þriggja herbergja íbúðir tók FÉSTA ákvörðun eftir greiningarvinnu að bjóða stúdentum að leigja þriggja herbergja íbúðir í lotuleigu. „Á vormisseri 2022 var fyrst boðið upp á þessa þjónustu og fór hún rólega af stað, en við finnum fyrir gríðarlega auknum áhuga á núverandi misseri og almenn ánægja er bæði innan háskólans og hjá stúdentum með þessa þjónustu,“ segir Jóhannes.

Vilja byggja stúdentagerða sem uppfylla kröfur stúdenta

Síðastliðið ár hefur farið fram greiningarvinna varðandi framtíðarsýn og húsnæðismál FÉSTA „kjarninn í þeirri vinnu er að aðlaga húsnæðisframboð FÉSTA að þeirri eftirspurn sem hefur verið síðustu misseri og erum við að horfa á að byggja í nánustu framtíð byggingar sem myndu uppfylla frekar núverandi kröfur stúdenta varðandi stærð og skipulag íbúða og einstaklingsherbergja,“ segir Jóhannes að lokum.


Athugasemdir

Nýjast