Bjartsýnni eftir fund með SÍ

Séð yfir Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.
Séð yfir Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.

„Við áttum góðan fund með Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) og erum bjartsýnni núna en áður eftir þetta samtal,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs Akureyrar. Bæjaryfirvöld funduðu síðastliðinn miðvikudag með SÍ um yfirfærslu á rekstri Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA). Bæjaryfirvöld ákváðu í lok apríl á síðasta ári að endurnýja ekki samning við SÍ um rekstur ÖA sem rann út 31. desember sl. og var stofnuninni og heilbrigðisráðherra tilkynnt um ákvörðun bæjarins 5. maí 2020. 

Samningurinn var fyrir áramót framlengdur til loka aprílmánaðar. Bæjarstjórn bókaði á síðasta fundi sínum, eftir umræður um málið, að algjör óvissa sé ríkjandi um hver kemur til með að reka heimilin frá og með 1. maí nk. og mikilvægt sé að þeirri óvissu verði eytt.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

Tveir aðilar líst yfir áhuga

Guðmundur Baldvin segir að eftir fund með SÍ telji hann að málin séu að þokast í rétta átt. „Þetta hefur tekið langan tíma og verið hálfgerð sorgarasaga og gengið hægt. Málin skýrðust hins vegar nokkuð á fundi okkar með SÍ og a.m.k. tveir aðilar hafa líst yfir áhuga á að taka við rekstrinum og því gætir aukinnar bjartsýni um farsæla lausn“ segir Guðmundur Baldvin.  


Nýjast