Bjartsýnn á að ráðist verði í Vaðlaheiðargöng
Sigmundur Ernir Rúnarsson þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi er bjartsýnn á að ráðist verði í framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Göngin þurfi þó að vera rekin á faglegum forsendum, þannig að fjármögnunin og verkþátturinn séu á pari við þær áætlanir um að göngin standi undir sér. Ef ekki þurfum við að hugsa dæmið upp á nýtt. Sá tími er liðinn að stjórnvöld ljúgi að þjóðinni. Ég hef enn þá trú að það borgi sig að fara í framkvæmdina, miðað við þetta tilboð upp á 95% af kostnaðaráætlun.
Alcoa hefur hætt við byggingu álvers á Bakka við Húsavík og eru Þingeyingar ósáttir við þróun mála varðandi orkunýtingu og atvinnuuppbyggingu í sýslunni. Mörður Árnason flokksfélagi Sigmundar sá ástæðu til að óska Þingeyingum til hamingju með ákvörðun Alcoa í umræðum á þingi. Sigmundur sagðist ekki deila þeirri skoðun með Merði. Það eru margar vistarverur í mínum flokki og ég ven komur mínar ekki í sama herbergi og Mörður Árnason.
Sigmundur segir að það hafi alltaf legið ljóst fyrir að gufan í Þingeyjarsýslu yrði virkjuð í áföngum. Þess vegna tel ég eðlilegt og líklega affarasælla að ávinningurinn af þeirri miklu orku sem er á Þeistareykjasvæðinu verði nýttur til langvarandi hagsældar fyrir svæðið. Hann segir að uppbyggingin verði ekki í einum hvelli, heldur gerist hún á 10-15 árum og þarna komi til sögunnar margir kaupendur, sem stofni einhvers konar iðngarða. Ég er hins vegar orðinn mjög óþreyjufullur að sjá ísbrjótinn í þeim hópi sem kemur á svæðið og varðar leiðina. Landsvirkjun, sem vill fá mikið fyrir orkuna, getur ekki beðið árum saman á þeim tíma sem þjóðin þarf sem mest á vinnu að halda. Það verður líka að meta kostnaðinn af töfinni. Þá þarf að tryggja að orkan verði nýtt á svæðinu, það er lykilatriði og þarf að taka af allan vafa um það.