Bjartsýn á myndun meirihluta í Norðurþingi

Fulltrúar B-lista Framsóknarflokks og félagshyggju og D-lista Sjálfstæðisflokks funduðu í fyrsta sinn formlega í gær um myndun meirihluta í sveitarstjórn Norðurþings.

Hjálmar Bogi Hafliðason, oddviti B-lista og Hafrún Olgeirsdóttir, oddviti D-lista leiða umræðurnar. Þau segja bæði í samtali við Vikublaðið að þau séu bjartsýn á að viðræðurnar skili sér í myndun meirihluta.

„Það er samhljómur og við erum sammála um að halda áfram og vinna að góðum verkefnum,“ segir Hjálmar Bogi og bætir við að hann eigi jafnvel von á tíðindum á morgun. „Svo á eftir að útfæra málefnasamning og svona. Við erum bara sammála um að byggja upp, halda áfram og forðast baksýnisspegilinn. Ég held að það sé ekki mikil eftirspurn eftir því. Þetta snýst um að halda áfram og vinna öll saman 9 í sveitarstjórn,“ segir hann.

Aðspurður hvort það hafi komið til tals að fara sömu leið og bæjarstjórn Akureyrar gerði á síðasta kjörtímabil, að mynda samstjórn allra flokka í sveitarstjórn, sagði Hjálmar Bogi að því hafi verið velt upp. „Eftir reynslu þeirra á Akureyri, þá mælir engin með því. Það er frekar að það þróist út í það en við byrjum á því að mynda meirihluta. Við höfum samt alveg rætt það að keyra á samvinnu allra níu fulltrúa, nýta styrkleika allra og vinna saman,“ segir hann.

Hafrún segir einnig að viðræður gangi vel. „Þær standa yfir og miðar áfram. Það hefur alla vega ekki strandað á neinu enn þá,“ segir hún og bætir við að aðeins einum formlegum fundi sé lokið.  „Við erum að leggja þetta niður á borðið og erum að taka fyrstu skref. Við höldum áfram í þessari vinnu eitthvað áfram,“ segir hún og bætir við aðspurð að hún sé nokkuð bjartsýn á komandi viðræður.

Í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum fékk B-listinn 31,6% atkvæða og þrjá menn kjörna og D-listinn 23,9% og tvo menn kjörna. Það eru níu fulltrúar í sveitarstjórn Norðurþings.


Athugasemdir

Nýjast