Verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar voru veitt í dag í 20. skipti en þau eru veitt árlega af JCI á Íslandi en samtökin eru um þessar mundir að veita verðlaunin.
Framúrskarandi Íslendingur 2021 er Þórunn Eva G Pálsdóttir. Það var forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin.
Þetta árið bárust hátt í þrjú hundrað tilnefningar frá almenningi en auglýst er eftir tilnefningum á hverju ári og getur hver sem er tilnefnt framúrskarandi ungan Íslending. Sérstök dómnefnd fer svo yfir tilnefningar og velur úr 10 framúrskarandi einstaklinga sem fá viðurkenningu og þar af einn verðlaunahafa.
Húsvíkingurinn Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir er ein þessara 10 framúrskarandi einstaklinga og fékk viðurkenningu þess efnis í dag fyrir framlag hennar til barna, heimsfriðar, og/eða mannréttinda.
Tanja hefur í sex ár verið ötul baráttukona gegn kynbundnu ofbeldi, bætingum í réttarkerfinu og í þágu þolenda. Allt er þetta launalaust sjálfboðastarf. Hún er með bachelorgráðu í sálfræði og skrifaði ba ritgerð þar sem hún innihaldsgreindi #metoo frásögur kvenna og gerði vandamálinu góð skil. Hún hefur margsinnis bent á óþægilegar staðreyndir, ruggað bátnum og orðið í kjölfarið fyrir miklu aðkasti, en stendur keik þó á móti blási.
Hún hefur sýnt mikið hugrekki og opnað augu margra hvernig staðan er, í von um að stuðla að auknum upplýsingum og forvörnum gegn ofbeldi og áreitni ásamt því að hafa áhrif á bætta réttarstöðu þolenda og umræðu og viðhorf í þjóðfélaginu.
Tanja hefur verið ein af þeim fremstu í flokki aðgerðasinnahópsins Öfgar sem stofnaður var í vor. Henni hefur verið lýst sem fyrirmynd margra í femínisma og aktívisma í dag sem og bjart ljós fyrir komandi kynslóðir og betra samfélagi fyrir öll kyn og þolendur kynferðisofbeldis.
Í Vikublaðinu sem kemur út á morgun er miðopnuviðtal við Tönju.