Bjarni: Ég var aldrei að fara að klikka á þessu færi
Bjarni Fritzson var hetja Akureyrar í kvöld er hann tryggði liðinu jafntefli gegn Val, 24-24, í spennandi handboltaleik í Höllinni í kvöld í N1-deild karla. Bjarni skoraði jöfnunarmarkið þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka og tíminn of naumur fyrir Valsmenn að svara fyrir sig. Þetta var alveg svaklegt en ég var aldrei að fara að klikka á þessu færi. Það var ekki sjens, sagði Bjarni í samtali við Vikudag eftir leik. Akureyringar byrjuði leikinn skelfilega og lentu sex mörkum undir í fyrri hálfleik en unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn aftur. Ég veit ekki alveg hvað við vorum að gera þarna í fyrri hálfleik. Það var allt í klessu hjá okkur og varnarleikurinn út á þekju. Það var hins vegar afar mikilvægt að ná að þessum góða leikkafla fyrir hlé og það gaf okkur möguleika fyrir síðari hálfleikinn. Ég veit ekki hvort við hefðum verðskuldað tvö stig í kvöld en klárlega eitt. Við getum byggt á þessari frammistöðu. Það er langur vegur í úrslitakeppnina en þangað ætlum við, sagði Bjarni.
Anton Rúnarsson leikmaður Vals var hundsvekktur í leikslok. Ég er bara drullfúll. Ég hefði viljað fara með tvö stig héðan út og ekkert sérlega ánægður með þetta stig þó það sé betra en ekkert. Ég fékk færi á að skora þarna í lokin en klúðraði því og þeir komust inn í þetta og því fór sem fór. Ég er samt ánægður með hvernig við komum stemmdir til leiks en svo misstum við aðeins dampinn og þeir komust inn í þetta aftur. Mér fannst við samt alltaf vera skrefinu á undan þeim í leiknum og veit ekki alveg hvort þetta hafi verið sanngjarnt. Við sýndum hins vegar að við getum spilað góðan sóknarleik þótt að Valdimar Fannar (Þórsson) sem er besti sóknarmaður deildarinnar var ekki með. Þannig að þetta lítur bara ágætlega út hjá okkur fyrir framhaldið, sagði Anton.