Bjarni bjargaði stigi fyrir Akureyringa

Akureyri og Valur skildu jöfn, 24-24, í æsispennandi leik í Höllinni á Akureyri í kvöld í N1-deild karla í handbolta. Dramatíkin var allsráðandi á lokasekúndum leiksins en Bjarni Fritzson jafnaði metin fyrir Akureyri þegar fjórar sekúndur voru eftir. Hlynur Morthens var Akureyringum erfiður í kvöld sem oft áður en hann varði  17 skot í leiknum. Honum tókst hins vegar ekki að koma í veg fyrir að taphrinu Akureyrar myndi ljúka í kvöld, sem fyrir leikinn höfðu tapað þremur leikjum í röð. Valur fer með stiginu upp í 4 stig í deildinni en Akureyri hefur 3 stig.

Valsmenn komu sem hungraðir úlfar til leiks í Höllinni á Akureyri í kvöld. Þeir nýttu sér grimmdarleysið í varnarleik Akureyrar og náðu fjögurra marka forystu, 7-3, eftir um tíu mínútna leik. Varnarleikur Vals var öflugur og sóknin gekk sem smurð díselvél.  Akureyringum gekk bölvanlega að brjóta vörn Vals á bak aftur, en að sama skapi opnuðust glufur reglulega í vörn heimamanna og Valsmenn höfðu oft lítið fyrir mörkum sínum. Hornamaðurinn Sturla Ásgeirsson lék lausum hala á miðjunni hjá Val og skoraði að vild. Þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður fékk Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar nóg og tók leikhlé, en staðan var þá 5-9 Valsmönnum í vil.

Það voru hins vegar Valsmenn sem efldust við leikhléið og náðu sex marka forystu, 11-5, eftir átján mínútna leik og eflaust var farið að fara um stuðningsmenn Akureyrar í Höllinni. Norðanmenn hleyptu þeim þó ekki lengra frá sér og söxuðu hægt og bítandi á forskotið. Með betri vörn og Sveinbjörn í sínum eðlilega gír í marki norðanmanna náðu Akureyringar góðum kafla og minnkuðu muninn í eitt mark fyrir hlé, 13-14.

Akureyringar héldu áfram sem frá var horfið í upphafi seinni hálfleiks og jöfnuðu metin í 14-14 og komust svo marki yfir, 15-14, í fyrsta skipti í leiknum og leikurinn virtist vera að snúa heimamönnum í hag. Næstu mínútur voru hníjafnar þar sem liðin skiptust á að skora. Leikmenn beggja liða gerðu mikið af mistökum í sóknarleiknum og mörg færi í súginn. Valsmenn virtust vera að snúa leiknum sér í hag ný með tveggja marka forystu, 18-16, þegar tíu mínutur voru liðnar af seinni hálfleik. Þá tóku norðanmenn við sér og komust yfir á ný , 19-18 og 20-19 er seinni hálfleikurinn var hálfnaður. Leikurinn var hins vegar afar kaflaskiptur og Valsmenn náðu tveggja marka forystu, 22-20, með góðum leikkafla er tíu mínútur lifðu leiks.

Akureyringar lentu í brottrekstra vandræðum og misstu tvo menn af velli með 15 sekúndna millibili í stöðunni, 21-22, og rúmlega átta mínútur eftir. Norðanmenn fengu hins vegar aðeins eitt mark á sig á þessum tveimur mínútum sem þeir voru tveimur færri. Valsmenn náðu að auka forskotið í þrjú mörk, 24-21, þegar fimm mínútur lifðu leiks. Sturla Ásgeirsson hefði getað klárað leikinn með marki úr víti þegar ein og hálf mínúta var eftir og náð þriggja marka forystu á ný. Stefán Guðnason kom í markið og varði vítakastið. Það gerði gæfumuninn fyrir norðanmenn sem náðu að minnka muninn í eitt mark, 23-24, og Valsmenn tóku leikhlé þegar 25 sekúndur voru til leiksloka. Gestirnir lögðu í sókn en misstu boltanum frá sér og Bjarni Fritzson skeiðaði upp völlinn og honum brást ekki bogalistinn og jafnaði metin. Lokatölur, 24-24.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 8 (3), Guðmundur Hólmar Helgason 6, Oddur Gretarsson 2, Geir Guðmundsson 2, Jón Heiðar Sigurðsson 2, Hreinn Þór Hauksson 1, Bergvin Gíslason 1, Guðlaugur Arnarsson 1, Halldór Örn Tryggvason 1
 Varin skot:
Sveinbjörn Pétursson 14, Stefán Guðnason 1 (1)

Mörk Vals: Sturla Ásgeirsson 8 (2), Anton Rúnarsson 5, Finnur Ingi Stefánsson 5, Magnús Einarsson 2, Orri Freyr Gíslason 2, Sigfús Sigurðsson 2.
Varin skot:
Hlynur Morthens 17 (1)

Nýjast